Viðskipti innlent

RÚV hagnaðist um áttatíu milljónir

Sæunn Gísladóttir skrifar
Viðsnúningur varð í rekstri RÚV frá fyrra ári.
Viðsnúningur varð í rekstri RÚV frá fyrra ári. Vísir/GVA
Viðsnúningur varð í rekstri RÚV frá fyrra ári. Ríkisútvarpið hagnaðist um áttatíu milljónir fyrir skatta árið 2015, samanborið við 339 milljónir króna tap á fyrra rekstrarári fyrir skatta.

RÚV fékk 4,9 milljarða í tekjur úr ríkissjóði frá 1. september 2014 til 31. desember 2015. Þessar tekjur jukust um 1,5 milljarð á milli ára.

Breytingaferli síðasta árs hefur skilað umtalsverðri hagræðingu í rekstri félagsins, segir í tilkynningu. Markmiðið var að hagræða í ytri umgjörð og rekstri en verja dagskrá eins og kostur er, meðal annars var stór hluti húsnæðis RÚV leigður út.

Vert er að hafa í hug að nú tóku í gildi breytingar, uppgjör RÚV var frá 1.september til ágústloka en er nú 1. janúar til ársloka, eins og er hjá öðrum fyrirtækjum.

Guðlaugur G. Sverrisson þakkar jákvæðar rekstrarniðurstöður aðhaldi í rekstri.
Guðlaugur G. Sverrisson segist, í samtali við Vísi, ánægður með þessa niðurstöðu, að nú sjáist jákvæðar rekstrarniðurstöður:

„Aðalatriðið er þetta að aðhald er að skila sér og sú stefna að minnka umbúðir og auka innihald er að ganga eftir. Undir styrkri stjórn útvarpsstjóra og stjórnar, sem og starfsmanna. Það er mitt mat á þessu.“

Rekstrargjöld lækka að raunvirði milli áranna 2014 og 2015 þrátt fyrir að kostnaður við dreifikerfi hækki en sá kostnaður er til kominn vegna samnings um stafræna dreifingu frá 2013. Afskriftir rekstrarfjármuna lækka einnig milli sömu tímabila en fjármagnskostnaður er enn hár vegna mikillar skuldsetningar. Kostnaður við yfirstjórn lækkar milli tímabila. Tekjur félagsins hækka á milli ára. Stöðugildi voru að meðaltali 259 á tímabilinu en þeim hefur fækkað á undanförnum árum, voru 297 árið 2013 og 324 árið 2008.

Samið var um sölu á byggingarrétti á lóð Ríkisútvarpsins í október 2015. Þegar hafa verið greiddar 800 milljónir króna vegna sölunnar sem Ríkisútvarpið ráðstafaði til niðurgreiðslu skulda. Vegna fyrirvara í kaupsamningi og varúðarsjónarmiða er söluhagnaður ekki færður í ársreikningi ársins 2015. Stjórnarformaðurinn segir að RÚV eigi þetta til góða. Gert er ráð fyrir því að eiginfé batni sem nemur ríflega 1,5 milljarði króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×