Viðskipti innlent

Hrafnhildur nýr framkvæmdastjóri FKA

Sæunn Gísladóttir skrifar
Hrafnhildur Hafsteinsdóttir tekur við af Huldu Bjarnadóttur sem framkvæmdastjóri FKA.
Hrafnhildur Hafsteinsdóttir tekur við af Huldu Bjarnadóttur sem framkvæmdastjóri FKA. Mynd/aðsend
Hrafnhildur Hafsteinsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Félags kvenna í atvinnulífinu og mun hún taka við starfinu af Huldu Bjarnadóttur sem hefur störf sem framkvæmdastjóri millilandaráða Viðskiptaráðs Íslands.

Hrafnhildur hefur víðtæka menntun og 15 ára reynslu í stjórnunar-, markaðs- og kynningarmálum, segir í tilkynningu. Hún starfaði sem verkefnastjóri MBA-náms í Háskólanum Reykjavík frá 2007 en áður var hún kynningarstjóri Námsgagnastofnunar. Hrafnhildur er með PLD gráðu frá IESE Business School í Barcelona, B.A. gráðu í almannatengslum frá Auckland University of Technology í Nýja Sjálandi og IAA gráðu í markaðs- og auglýsingafræðum frá IACT í Kuala Lumpur. 

Hrafnhildur hefur jafnframt mikinn áhuga á markþjálfun og er útskrifaður stjórnendamarkþjálfi frá Háskólanum í Reykjavík 2014. Hún hefur  reynslu af stjórnarsetu og er ein af þremur stofnendum styrktarfélagsins Gleym mér ei og situr í stjórn þess.

„Að stuðla að betri tækifærum kvenna í athafnalífinu er gríðarlega mikilvægt og verður það spennandi verkefni að fá að leiða FKA áfram í því góða starfi sem hefur verið unnið. Í þeim verkefnum sem ég mun takast á við verða gildi félagsins mitt leiðarljós: Framsýni, Kunnátta og Afl," segir Hrafnhildur í tilkynningu.

Hrafnhildur verður sýnileg og mun tileinka sér starfsemi FKA á næstu vikum, Hulda mun áfram sjá um síma og tölvupóst FKA þangað til annað verður tilkynnt.  Nú fer í hönd yfirfærslu tímabil sem mun ljúka í maí.

Rúmlega 60 umsóknir bárust um starf framkvæmdastjóra FKA.


Tengdar fréttir

Hrekja mýtuna um að konur segi nei

Hulda Bjarnadóttir hefur verið framkvæmdastjóri FKA í fimm ár. Hún segist hafa upplifað mikla vitundarvakningu á tímabilinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×