Viðskipti innlent

Segir þrýsting um auknar arðgreiðslur úr HS-veitum

Sæunn Gísladóttir skrifar
Gunnar Axel Axelsson, bæjarfulltrúi og oddviti Samfylkingarinnar segir þrýsting um auknar arðgreiðslur frá nýjum hluthöfum.
Gunnar Axel Axelsson, bæjarfulltrúi og oddviti Samfylkingarinnar segir þrýsting um auknar arðgreiðslur frá nýjum hluthöfum. Vísir/GVA
Stjórn HS Veitna ákvað á hluthafafundi í gær að láta fyrirtækið kaupa hlutabréf af eigendum fyrir hálfan milljarð króna.

Um er að ræða form af arðgreiðslu. Eigendurnir eru Hafnarfjarðarbær, auk Reykjanesbæjar, Sandgerðisbæjar og HSV Eignarhaldsfélags slhf (í eigu Heiðars Guðjónssonar og tengdra aðila).

Minnihluti bæjarstjórnar Hafnarfjarðar sat hjá við afgreiðslu á málinu.

Gunnar Axel Axelsson, bæjarfulltrúi og oddviti Samfylkingarinnar, segir þrýsting um auknar arðgreiðslur frá nýjum hluthöfum. Ekki hafi verið hægt að taka ákvörðun um þetta í ljósi þess að afkoma félagsins árið 2015 og hvaða fjárfestingar fyrirtækið ætli að ráðast í á árinu lágu ekki fyrir.

„Við sátum hjá og tókum ekki afstöðu til tillögunnar á þeim forsendum að það lá ekki fyrir hver afkoma fyrirtækisins var árið 2015. Okkur þótti í því ljósi ekki rétt að ákveða arðgreiðslu,“ segir Gunnar Axel sem talaði fyrir hönd bæjarfulltrúa Samfylkingarinnar og Vinstri grænna.

„Ég set einnig spurningamerki við þetta fyrirkomulag, að verið sé að greiða út arð vegna afkomu ársins í þessu formi. Mér fannst koma mjög lítil svör við spurningum okkar hvað varðar aðferðarfræðina. Þessu var stillt upp þannig að eigendur fyrirtækisins njóti skattahagræðis af því. Gott og vel ef það er löglegt og eðlilegt en ég hef efasemdir um það samt. “

Þá segir Gunnar Axel það einnig hafa komið fram í umræðunum að nýir hluthafar í fyrirtækinu, einstaklingsfjárfestir með hóp lífeyrissjóða með sér, hafa beitt þrýstingi um auknar arðgreiðslur.

„Það vekur spurningar um þýðingu þess að aðrir opinberir aðilar haldi eignarhlutum í almannaveitufyrirtæki ," segir Gunnar Axel.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×