Viðskipti innlent

Yfirvinna og kostnaður atvinnlífs myndi stóraukast að mati SA

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Skiptar skoðanir eru um hvort lögboð um styttingu vinnuvikunnar leiði til aukinnar framleiðni, eða auki bara kostnað atvinnulífsins.
Skiptar skoðanir eru um hvort lögboð um styttingu vinnuvikunnar leiði til aukinnar framleiðni, eða auki bara kostnað atvinnulífsins. vísir/vilhelm
Alvarlegar afleiðingar hefði fyrir íslenskt efnahagslíf að stytta vinnuvikuna úr 40 stundum í 35 án þess að kjör fólks skerðist um leið. Þetta er mat Samtaka atvinnulífsins (SA), sem skilað hafa inn athugasemdum við frumvarp fimm þingmanna sem vilja að leiðin verði farin. Dagvinna yrði sjö tímar í stað átta nú.

Mat SA er að við breytinguna falli 32 milljónir vinnustunda brott, eða 16 þúsund ársverk. Við breytinguna myndi greidd yfirvinna stóraukast og launakostnaður atvinnulífsins aukast um 26 til 28 prósent. „Vinnutími er samningsatriði í kjarasamningum og óeðlilegt er að Alþingi hafi afskipti af þessum mikilvæga hluta þeirra,“ segir í umfjöllun SA.

Þingmennirnir sem að frumvarpinu standa eru fyrir hönd Pírata Björn Leví Gunnarsson, Ásta Guðrún Helgadóttir og Helgi Hrafn Gunnarsson, en með þeim leggja það fram Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Samfylkingu, og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, VG.

Í greinargerð með frumvarpinu segir að markmið lagabreytingarinnar sé að auka markvisst framleiðni og lífsgæði launþega hér. „En líkt og skýrslur OECD hafa sýnt fram á haldast ekki endilega í hendur lengri vinnutími og meiri framleiðni,“ segir þar og margt talið benda til þess að styttri vinnudagur leiði til meiri framleiðni og aukinna lífsgæða.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×