Viðskipti innlent

Tæpir tveir milljarðar kyrrsettir

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Höfuðstöðvar LS Retail í Reykjavík eru á Höfðatorgi við Katrínartún.
Höfuðstöðvar LS Retail í Reykjavík eru á Höfðatorgi við Katrínartún. vísir/gva
Lykilstarfsmenn hugbúnaðarfyrirtækisins LS Retail telja að fyrirtækið hafi á síðasta ári verið selt á um fjórðung af raunverulegu virði. Sýslumaðurinn í Reykjavík hefur fallist á kyrrsetningu fjármuna sem nema fimmtungi af verðmati sem endurskoðandi vann fyrir starfsmennina.

Heimildir blaðsins herma að samkvæmt kaupréttarsamningum starfsmannanna hafi þeir átt að fá tuttugu prósent af söluandvirði fyrirtækisins. Miðað við söluandvirði LS Retail í fyrra hefðu því fimm hundruð milljónir króna átt að renna til starfsmannanna, en þeir telja hlunnfarna um einn og hálfan milljarð. Upphæðin hefði að þeirra mati átt að vera tæpir tveir milljarðar.

Tekist er á um málið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, en Viti ehf., félag í eigu Aðalsteins Valdimarssonar, höfðaði á síðasta ári mál á hendur íslenska eignaumsýslufélaginu ALMC (áður Straumur-Burðarás) vegna sölunnar á fyrirtækinu. Starfsmennirnir, sem eru fimmtán talsins, hafa stefnt sér inn í það mál. Þessa dagana er tekist á um frávísunarkröfu ALMC og úrskurðar að vænta í því eftir um hálfan mánuð.

Til að öðlast kaupréttinn skuldbundu starfsmennirnir sig til að starfa hjá fyrirtækinu og vinna að uppgangi þess og hafa samkvæmt heimildum blaðsins haldið þann samning síðustu fimm ár eða svo.

Samkvæmt heimildum blaðsins var fyrirtækið selt á 17,6 milljónir evra (rúma 2,5 milljarða króna), þrátt fyrir að fyrir hafi legið samningur um sölu annað upp á 37,5 milljónir evra (rúma 5,3 milljarða króna). Það verð hafi myndast á fyrri stigum en virði félagsins aukist frá því vegna mikils vaxtar og hagnaðar.

Endurskoðandi starfsmannanna metur verðmæti LS Retail hins vegar á 70 milljónir evra (tæpa 10 milljarða króna), á þeim degi sem fyrirtækið var selt. Starfsmennirnir hafa, samkvæmt heimildum blaðsins, sjálfir lagt fram tryggingar vegna kyrrsetningarinnar sem sýslumaður féllst á, svo sem með því að veðsetja heimili sín. Um er að ræða verulegar upphæðir því fimmtungur af metnu söluandvirði fyrirtækisins, 70 milljónir evra, er 14 milljónir evra, eða sem svarar um 1.994 milljónum króna.

Tryggingin á að standa undir hugsanlegu tjóni sem hlotist getur vegna kyrrsetningarinnar tapi þeir málinu. Sýslumaður féllst hins vegar á að veruleg hætta væri á því að fjármunum sem til hefðu orðið vegna sölunnar yrði komið í burtu þannig að endurheimtur yrðu þeim torveldar.

Salan á LS Retail gekk í gegn á síðasta ári, en fyrirtækið mun hafa verið selt, ásamt fleiri innlendum og erlendum eignum ALMC, til bandaríska fjárfestingasjóðsins Anchorage Capital Group.

LS Retail komst í eigu Straums-Burðaráss eftir að bankinn gekk að veðum vegna láns til Baugs Group, sem keypti fyrirtækið fyrir hrun. LS Retail framleiðir hugbúnaðarlausnir fyrir þjónustufyrirtæki, en það varð til eftir samruna Strengs og Landsteina árið 2007.

Athygli vakti fyrr á árinu þegar spurðist að ALMC hefði fyrir áramót innt af hendi yfir þriggja milljarða króna bónusgreiðslur til fyrrverandi og núverandi starfsmanna félagsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×