Viðskipti innlent

Vilja fá karlana með í jafnréttisumræðuna

Sæunn Gísladóttir skrifar
Mörg hundruð manns sóttu fundinn í haust.
Mörg hundruð manns sóttu fundinn í haust. Vísir/Sæunn Gísladóttir
Við erum langt komin í janfréttismálum og staða kvenna hefur breyst verulega, sérstaklega hjá stærri fyrirtækjum. Karlar verða þó að átta sig á forréttindum sínum og þurfa að vinna með þeim sem njóta þeirra ekki til að breyta samfélaginu. Þetta er mat Björgvins Inga Ólafssonar, framkvæmdastjóra hjá Íslandsbanka.

Björgvin mun halda erindi á fundi Íslandsbanka og Ungra athafnakvenna, Ljónin úr veginum, sem fer fram á Hilton Nordica í dag. Fundurinn er framhaldsfundur af Ljónin í veginum sem sjö hundruð manns sóttu í haust.

Á fyrri fundinum var fjallað um þær hindranar sem mæta ungum konum þegar þær stíga sín fyrstu skref í atvinnulífinu. Að sögn Björgvins verður haldið áfram á sömu nótum, en hann vonast eftir betri kynjaskiptingu á fundinum. „Við leggjum áherslu á það að til þess að umræðan hreyfist og málin fari í þann farveg sem við viljum. Þetta er ekki umræða sem á einungis að fara fram milli kvenna heldur eru áhrifin miklu meiri ef allir taka þátt í umræðunni, bæði konur og karlar," segir Björgvin.

„Skýrsla McKinsey & Company og Lean In Institute frá því í haust sýnir að það að nýta ekki krafta allra eins og kostur sé er samfélaginu dýrkeypt. Þó við séum komin langt í jafnréttismálum á Íslandi, þá er þetta ennþá svolítið kvennamál. Við höfum ekki náð því að segja að það sé hagur allra að þetta breytist," segir Björgvin.

Á fundinum mun Björgvin fara yfir reynslu Íslandsbanka af jafnréttismálum og taka raundæmi um hverju það hafi skilað. „Það er enn mikil vinna eftir, en það er að einhverju leyti breytt staða, sérstaklega hjá stórum fyritækjum," segir Björgvin.

Sýnt verður beint frá fundinum á Vísi í dag en hann hefst klukkan fimm.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×