Viðskipti innlent

Orkubloggari náði ekki kjöri í stjórn Fáfnis

ingvar haraldsson skrifar
Ketill Sigurjónsson, frambjóðandi til stjórnar Fáfnis.
Ketill Sigurjónsson, frambjóðandi til stjórnar Fáfnis.
Ketill Sigurjónsson, lögfræðingur og umsjónarmaður Orkubloggsins, hlaut ekki brautargengi í framboði sínu um laust sæti í stjórn Fáfnis Offshore á hluthafafundi sem lauk síðdegis í dag. Ketill var tilnefndur af Steingrími Erlingssyni, stofnanda Fáfnis, sem sagt var upp sem forstjóra fyrirtækisins í desember. Ketill naut einnig stuðnings danska félagsins Optima A/S, en Steingrímur á 21 prósenta hlut í Fáfni.

Ketill segir aðra hluthafa hafa stutt Davíð Stefánsson, starfsmann Íslandssjóða. Sjóðurinn Akur, sem er í rekstri Íslandssjóða, er stærsti hluthafi Fáfnis en íslenskir lífeyrissjóðir eru stórir hluthafar í Akri.

Ketill segir því eigendur tæplega 25 prósenta hlutar í Fáfni verða án fulltrúa í stjórn fram að aðalfundi, þegar ný stjórn verður kjörin. Heimilt er að halda aðalfundinn í síðasta lagi í lok ágúst.

Farið í skuldabréfaútgáfu

Á fundinum var einnig samþykkt að gefa út skuldabréfa að verðmæta tæplega 200 milljóna króna sem bera muni 20 prósenta vexti. Hluthafar munu fá að skrá sig fyrir skuldabréfinu í samræmi við eignarhlut sinn á undan öðrum. Kaupendur bréfanna munu geta breytt þeim í hlutafé í Fáfni og þannig eignast allt að 60% hlut í félaginu. Því mun hlutur þeirra hluthafa sem ekki taki þátt í útboðinu þynnast verulega.

Skuldabréfaútgáfan er gerð með það að markmiði að greiða af afborgunum lána vegna skipsins Fáfnis Viking, sem búið er að leggja á annan milljarð í smíði á. Ljóst er að þarf að leggja milljarða í viðbót til að ljúka smíði skipsins. Skipið er annað skip Fáfnis og átti að verða dýrasta skip Íslandssögunnar.

Samningur við Sýslumann sagður langt kominn

Á fundinum sögðu núverandi stjórnendur Fáfnis að stefnt væri að því að ganga frá samningnum við sýslumanninn á Svalbarða bráðlega um viðbótarleigu á 5 milljarða olíuþjónustuskipinu Polarsyssel um þrjá mánuði í ári. Polarsyssel hefur verið í leigu 6 mánuði á ári á Svalbarða. 

Undir lok síðasta árs var tilkynnt um að 3 mánuðum yrði bætt við samninginn á ári þannig að Polarsyssel yrði í 9 mánuði í útleigu á ári en ekki er enn búið að ganga frá samkomulaginu.



Lífeyrissjóðir stórir hluthafar

Akur á 30 prósenta hlut í Fáfni og Steingrímur 21 prósent hlut. Aðrir hluthafar eru sjóðurinn Horn II, sem á 23 prósenta hlut. Sjóðurinn er rekinn af Landsbréfum, dótturfélagi Landsbankans og lífeyrissjóðir eru stórir hluthafar í. Þá á Sjávarsýn ehf, fjárfestingafélag Bjarna Ármannssonar 7,3 prósenta hlut. Havyard Ship Invest, félag skipasmíðastöðvar Fáfnis á 6,12 prósenta hlut og Optima Danmark á 2,45 prósenta hlut.  Þá á Hlér ehf. 7,34 prósenta hlut og Landsbréf 2,5 prósenta hlut.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×