Viðskipti innlent

Hagnaður Eimskips jókst um 30,8 prósent á milli ára

Sæunn Gísladóttir skrifar
Hagnaður Eimskips nam 2,5 milljörðum króna árið 2015.
Hagnaður Eimskips nam 2,5 milljörðum króna árið 2015. Vísir/GVA
Hagnaður Eimskips nam 17,8 milljónum evra, jafnvirði 2,5 milljarða íslenskra króna, árið 2015 og jókst um 30,8 prósent milli ára. Hagnaðurinn í fyrra nam 13,6 milljónum evra, eða 1,9 milljarði íslenskra króna, segir í tilkynningu.

Rekstrartekjur voru 499,6 milljónir evra, jafnvirði 71 milljarðs íslenskra króna og jukust um 10,6 prósent frá 2014

EBITDA nam 45,2 milljónum evra, eða 6,4 milljörðum íslenskra krónum, og jókst um 17,3 prósent.

Flutningsmagn í áætlunarsiglingum á Norður-Atlantshafi jókst um 4,2 prósent á milli ára. Flutningsmagn í frystiflutningsmiðlun jókst um 7,5 prósent á milli ára.

Eiginfjárhlutfall var 64,2 prósent og nettóskuldir námu 35,4 milljónum evra, jafnvirði fimm milljarða íslenskra króna,í árslok.

Stjórn félagsins leggur til 6,50 króna arðgreiðslu á hlut sem er 30 prósent hækkun arðs frá 2015.

Áætluð EBITDA ársins 2016 er á bilinu 46 til 50 milljónir evra, eða 6,5 til 7,1 milljarður íslenskra króna.

 „Rekstrarniðurstaða ársins 2015 var í samræmi við væntingar okkar, 10,6 prósent tekjuvöxtur og 17,3 prósent hækkun EBITDA frá fyrra ári. Árið skilaði hæstu rekstrartekjum og EBITDA frá árinu 2009. Flutningsmagn í áætlunarsiglingum félagsins á Norður-Atlantshafi jókst um 4,2 prósent á milli ára. Mikill vöxtur var í flutningum tengdum Íslandi á meðan magn tengt Færeyjum dróst lítillega saman vegna breytts flutningamynsturs á uppsjávarfiski. Góður gangur hefur verið í Noregi eftir erfiðleika á fyrsta ársfjórðungi. Flutt magn í frystiflutningsmiðlun jókst um 7,5 prósent á milli ára,“ segir Gylfi Sigfússon, forstjóri, í tilkynningu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×