Viðskipti innlent

Ríkið styrki fólk til fyrstu íbúðarkaupa

Sæunn Gísladóttir skrifar
Ragnar Árnason leggur til að kaupandi gæti fengið veðleyfi í allri íbúðinni (þar með talið hlutdeild hins opinbera).
Ragnar Árnason leggur til að kaupandi gæti fengið veðleyfi í allri íbúðinni (þar með talið hlutdeild hins opinbera). Vísir/Vilhelm
Ragnar Árnason, prófessor við hagfræðideild Háskóla Íslands, leggur til gagngera breytingu á opinberu aðstoðarkerfi við kaup á fyrstu íbúð, að hið opinbera leggi til beint framlag til kaupverðs og samsvarandi hlutdeildar í íbúðarhúsnæði. Þetta kom á Fasteignaráðstefnunni í Hörpu í gær.

„Greiðslubyrði af lánum er erfið fyrir mjög marga, sérstaklega við kaup á fyrstu íbúð. Afleiðingin er meðal annars sú að fólk hrekst meira út í leiguhúsnæði sem er þjóðhagslega óhagkvæmt. Þetta lækkar fyrsta þröskuldinn mjög veruleg og virðist hafa jákvæða eiginleika," segir Ragnar.

Ragnar leggur til að þetta gæti samsvarað 10-15 prósent íbúðaverðs á einstakling eða þrjátíu prósent fyrir par. Ef par væri að kaupa íbúð á tuttugu milljónir þyrfti það þá einungis að taka lán fyrir fjórtán milljónum og með áttatíu prósent láni myndi útborgun nema 2,8 milljónum í stað fjórum milljónum.

„Að jafnaði kæmi hlutur hins opinbera til baka með sæmilegri ávöxtun, þar sem íbúðarhúsnæði vex í verðmæti mun hraðar en verðbólga,“ segir Ragnar og kveðst geta trúað því að stjórnvöld sem séu sífellt að leita að leiðum til að leysa málið vilji skoða hugmyndirnar nánar. „Og mér finnst það sjálfsagt," segir hann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×