Viðskipti innlent

Bankarnir sæta enn rannsókn

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Páll Gunnar Pálsson er forstjóri Samkeppniseftirlitsins.
Páll Gunnar Pálsson er forstjóri Samkeppniseftirlitsins.
Rannsókn Samkeppniseftirlitsins (SE) á meintri misnotkun á sameiginlegri markaðsráðandi stöðu stóru viðskiptabankanna þriggja er ennþá ólokið. Rannsóknin hófst vegna kvartana árið 2010. Kvartanirnar vörðuðu skilmála íbúðalána bankans, sem samkvæmt kvörtununum hindra einstaklinga í því að færa viðskipti sín til annarra banka og hamla þannig samkeppni.

Vakin er athygli á rannsókninni í ársreikningi Arion banka fyrir árið 2015. „Umfang rannsóknarinnar og útkoma málsins er enn óviss, sem og hver áhrifin á samstæðuna verða. Komi til þess að niðurstaða SE verði á þann veg að samstæðan hafi brotið samkeppnislög gæti það haft í för með sér sekt,“ segir í ársreikningnum.

Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, staðfestir í samtali við Fréttablaðið að rannsóknin sé enn í gangi. „Málinu var forgangsraðað aftur fyrir rannsókn á greiðslukortamarkaðnum sem lauk á síðasta ári með sekt á fyrirtækin. Þetta mál beið á meðan og við erum að taka ákvörðun um framhald málsins,“ segir Páll Gunnar.

Í skýrslu Samkeppniseftirlitsins, Fjármálaþjónusta á krossgötum, er fjallað lítillega um rannsóknina. Í skýrslunni segir jafnframt að halda þurfi áfram að draga úr aðgangshindrunum á fjármálamarkaði með því að beita samkeppnislögum af festu.

Í þeirri sömu skýrslu segir að rekstrarkostnaður bankanna á föstu verði hafi aukist verulega á hverju ári frá hruni. Rekstur 14 lánastofnana árið 2011 hafi kostaði 30% meira á föstu verði en rekstur 32 lánastofnana fyrir áratug. Að mati Samkeppniseftirlitsins gefur þetta til kynna að samkeppnisaðhaldi í bankaþjónustu sé áfátt því samkeppni hvetji fyrirtæki til hagræðingar.

„Viðskiptavinir bankanna greiða rekstrarkostnaðinn dýru verði með óhagstæðum viðskiptakjörum. Mikill vaxtamunur í alþjóðlegu samhengi leggst þungt á heimili og fyrirtæki og dregur úr samkeppnishæfni hagkerfisins,“ segir í skýrslunni. Sá vandi sem endurspeglast í háum rekstrarkostnaði bankanna og þar með háum vaxtakostnaði heimila og fyrirtækja sé mikill og ekki auðleystur.

Líkt og fram kom í Fréttablaðinu í gær var afkoma bankanna þriggja þó mjög góð á síðasta ári. Samanlagður hagnaður eftir skatta nam 106,8 milljörðum króna.

Arion banki hagnaðist mest eða um tæpa fimmtíu milljarða króna. Afkoman markast mjög af óreglulegum liðum, einkum eignasölu í fimm félögum.

Minna munaði milli bankanna í hagnaði af reglulegri starfsemi. Þar hagnaðist Arion banki um 16,8 milljarða, en Íslandsbanki um 16,2 milljarða króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×