Viðskipti innlent

Borg brugghús herjar á Noreg

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Á döfinni hjá bruggmeisturunum er meðal annars ferð til Noregs þar sem margt verður brallað.
Á döfinni hjá bruggmeisturunum er meðal annars ferð til Noregs þar sem margt verður brallað. mynd/Haraldur Jónasson
Nýverið hóf Borg Brugghús sölu á bjórum sínum til Noregs. Um tíu prósent af framleiðslu fyrirtækisins er fluttur út á erlenda grund og oftar en ekki er eftirspurnin talsvert meiri en framboðið.

Borg fetar oft ótroðnar slóðir en í páskabjór fyrirtækisins í ár, Magðalenu nr. 41, er meðal annars að finna talsvert af appelsínumarmelaði.
„Þetta lofar bara nokkuð góðu og kemur skemmtilega á óvart. Við höfum ekki ennþá tekið þátt í eiginlegu „tenderi“ hjá Vinmonopolet sem er hin hefðbundna leið inn í verslanir þeirra og er jafnan tímafrekt – nokkurskonar samkeppni um vörulistun. Þeir voru hinsvegar hrifnir af bjórunum og ákváðu að taka þá sérpöntunarflokk þar sem neytendur gátu pantað þá á netinu og fengið þá afgreidda í næsta útibú. Það opnaði leiðina fyrir okkur,“ segir Valgeir Valgeirsson bruggmeistari Borgar.

Sem stendur er boðið upp á tvo bjóra fyrirtækisins í Vinmonopolet en svo kallast norska vínbúðin. Bjórarnir tveir eru Myrkvi nr. 13 og Leifur nr. 32. Sem stendur eru bjórarnir fáanlegir í tæplega þrjátíu verslunum í landinu.

Á döfinni hjá bruggmeisturum fyrirtækisins er ferð til Noregs í næsta mánuði. Þar er stefnan tekin á að kíkja á bjórviðburði í Osló, Björgvin og Stafangri auk þess sem markið er sett á að brugga samstarfsbjóra með tveimur til þremur norskum míkró bruggsmiðjum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×