Viðskipti innlent

500 milljóna fjárfesting í hátæknivélum

Sæunn Gísladóttir skrifar
Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, og Carlos Cruz, forstjóri Vífilfells, vígðu í gær formlega vélarnar.
Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, og Carlos Cruz, forstjóri Vífilfells, vígðu í gær formlega vélarnar. Mynd/aðsend
Vífilfell hefur fjárfest fyrir tæplega 500 milljónir króna í tveimur nýjum Tetra Pak hátkænivélasamstæðum. Þetta er stærsta fjárfestingarverkefni Vífilfells á síðustu fimm árum, segir í tilkynningu.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, og Carlos Cruz, forstjóri Vífilfells, vígðu í gær formlega vélarnar í verksmiðju Vífilfells á Stuðlahálsi. Í vélunum fer fram pökkun og áfylling allra safa fyrirtækisins auk pökkunar á próteindrykknum Hámarki.

Markmið eigenda fyrirtækisins er að verksmiðjan hér verði nægilega tæknileg og afkastamikil að hægt verði að sækja á erlenda markaði með íslensk vörumerki eins og Trópí, Svala og Hámark.  Hlutfall tekna vegna útflutnings hefur vaxið hratt síðustu ár. Aðallega á bjór sem bruggaður er á Akureyri.

Nýju vélarnar voru settar upp í lok síðasta árs og hafa verið í notkun síðustu vikurnar undir handleiðslu sérfræðinga frá The Coca-Cola Company og Tetrapak. Neytendur hafa þegar orðið varir við nýjar umbúðir en lögun pakkninganna hefur breyst og þeim fylgir ný tegund af röri sem þarf að draga í sundur.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×