Viðskipti innlent

Vísbendingar um aukin skattaundanskot í byggingariðnaði

ingvar haraldsson skrifar
Skúli Eggert Þórðarsson ríkisskattstjóri segir tilefni til að skoða hvort rétt sé að hvort hefja eigi 100 prósent endurgreiðslur á virðisaukskatti vegna Allir vinna á ný.
Skúli Eggert Þórðarsson ríkisskattstjóri segir tilefni til að skoða hvort rétt sé að hvort hefja eigi 100 prósent endurgreiðslur á virðisaukskatti vegna Allir vinna á ný.
Líkur eru á að skattaundanskot hafi aukist í byggingariðnaði að undanförnu í kjölfar lægri endurgreiðslu virðisaukaskatts. Þetta er mat Skúla Eggerts Þórðarsonar ríkisskattstjóra.

Í ársbyrjun 2015 lækkaði endurgreiðsla virðisaukaskatts til eigenda íbúðarhúsnæðis vegna vinnu iðnaðarmanna á húsnæði þeirra úr 100 prósentum í 60 prósent. Endurgreiðslurnar höfðu verið 100 prósent frá árinu 2009 þegar svokölluðu „Allir vinna“ átaki var hrundið af stað. Í kjölfar breytinganna í byrjun ársins hefur beiðnum um endurgreiðslur fækkað um 60 prósent á sama tíma og umsvif í byggingariðnaði hafa aukist. Endurgreiðslubeiðnum vegna síðasta árs geti þó enn fjölgað og einhverjir telji það kannski ekki borga sig að óska eftir endurgreiðslu. Það geti þó ekki útskýrt allan mismuninn að sögn ríkisskattstjóra.

Skúli bendir á að með því að gefa vinnuna ekki komi kaupandinn sér hjá því að greiða 40 prósent af virðisaukaskattinum. Þá geti seljandi vinnunnar sloppið við að gefa söluna upp til tekjuskatts. Í hundrað prósent endurgreiðslu sé hins vegar enginn ávinningur fyrir kaupanda að gefa ekki upp virðisaukaskatt.

Skúli segir afar erfitt að hafa eftirlit með hvort vinna sem fer fram á heimilum sé gefin upp til skatts. Því sé mikilvægt að hvatinn til undanskota sé ekki fyrir hendi. Skúli veltir upp hvort ekki sé rétt að endurgreiða virðisaukaskattinn að fullu á ný. „Ég er sammála fjármálaráðherra um það sem kom fram á Alþingi á mánudag að það sé ástæða til þess að huga að því að fara með þetta aftur í 100 prósent,“ segir Skúli.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði á Alþingi á mánudaginn að mikilvægt væri að haga reglum þannig að ekki væri hvati til þess að stinga undan skatti. Hann nefndi í því samhengi breytingarnar sem hafa orðið á endurgreiðslunum. „Skilaboðin sem við fáum frá kerfinu eru sem sagt þau að það sé minna um að virðisaukaskattsskýrslum sé skilað eftir að við lækkuðum endurgreiðsluna úr 100 prósentum niður í 60 prósent,“ sagði Bjarni.

Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, segist telja að það hafi verið óskynsamlegt að lækka endurgreiðsluhlutfallið því endurgreiðslan með Allir vinna hafi verið til þess fallin að bæta skattskil.

Ríkisskattstjóri segir eftirlit með byggingariðnaði og öðrum atvinnugreinum mikið. Engu að síður ætlar embættið að bæta 4 til 5 starfsmönnum við skattaeftirlit til viðbótar við um 30 sem fyrir eru til að sinna þeim verkefnum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×