Viðskipti innlent

Hagnaður Deloitte nær tvöfaldast

ingvar haraldsson skrifar
Höfuðstöðvar Deloitte eru í Turninum í Kópavogi.
Höfuðstöðvar Deloitte eru í Turninum í Kópavogi. vísir/gva
Ráðgjafar- og endurskoðunarfyrirtækið Deloitte hagnaðist um 322,7 milljónir króna á síðasta rekstrarári sem lauk þann 31. maí 2015. Hagnaður félagsins á fyrra rekstrarári var 175 milljónir króna og því jókst hagnaðurinn um 85 prósent milli ára. Deloitte er í eigu D&T sf. sem er í eigu 36 einstaklinga.

Stjórn félagsins leggur til að allt að 322 milljónir verði greiddar í arð, eða sem nemur nær öllum hagnaðinum. Á síðasta rekstrarári nam greiddur arður 159,2 milljónum króna. Greiddur arður 2013-2014 nam 120 milljónum.

Tekjur Deloitte á síðasta rekstrarári námu 3.250 milljónum króna. Þar af námu tekjur af endurskoðun 1.506 milljónum en tekjur af annarri þjónustu 1.744 milljónum króna. Tekjurnar jukust um 234 milljónir króna milli ára.

Eins og gefur að skilja er launakostnaður stærsti útgjaldaliður fyrirtækisins. Hann nam 2.213 milljónum króna, og hækkaði um 27 milljónir milli ára. Stöðugildum fækkaði hins vegar úr 191 í 173. Þá námu launagreiðslur til stjórnenda 207 milljónum króna en framkvæmdastjórum var fjölgað um einn.

Rekstrarhagnaður Delottie nam 414 milljónum króna miðað við 236 milljóna hagnað á fyrra rekstrarári. Þá hækkaði annar rekstrarkostnaður lítillega og nam 590 milljónum.

Eignir Deloitte nema tæplega 1,7 milljörðum króna. Þar af nemur handbært fé 259 milljónum króna og viðskiptakröfur tæplega 800 milljónum.

Eigið fé Deloitte nam 567 milljónum króna en skuldir tæplega 1,2 milljörðum króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×