Viðskipti innlent

Stormasöm vika að baki

Sæunn Gísladóttir skrifar
Elvar Ingi Möller segir íslenska markaði fylgja erlendum mörkuðum í meira mæli en áður.
Elvar Ingi Möller segir íslenska markaði fylgja erlendum mörkuðum í meira mæli en áður.
Gríðarlegar sveiflur hafa átt sér stað á íslenskum hlutabréfamarkaði undanfarna viku.

Úrvalsvísitalan hrapaði í síðustu viku og hafði lækkað um 10 prósent það sem af var ári þegar lækkunin var mest. Í byrjun vikunnar hóf Úrvalsvísitalan að hækka á ný og hækkaði um 3,26 prósent í gær. Þetta er í takt við þróun á erlendum mörkuðum.

Elvar Ingi Möller hjá greiningardeild Arion banka telur að eðlilegt sé að fylgni sé milli markaða.

„Það sem af er ári hefur innlendur hlutabréfamarkaður þróast með sambærilegum hætti og helstu hlutabréfavísitölur beggja vegna Atlantshafsins. Þó að lækkunin hér heima á fyrstu dögum ársins hafi ekki verið jafn mikil og á erlendum mörkuðum voru lækkanir í síðustu viku nokkuð skarpari á innlendum hlutabréfamarkaði en úti í heimi. Hlutfallsleg lækkun Úrvalsvísitölunnar og helstu erlendu vísitalna það sem af er ári er því svipuð. Það er eðlilegt að það sé fylgni milli markaða, sér í lagi þegar lækkanir erlendis eru drifnar áfram af vangaveltum og einhverju leyti ótta við að þróttur alþjóðahagkerfisins, og þá helst í Kína, sé að minnka,“ segir Elvar Ingi.

Úrvalsvísitalan hækkaði um 43 prósent á síðasta ári. Ekki eru þó öll félög í Kauphöllinni í Úrvalsvísitölunni og þegar litið er á vísitölu sem mælir öll félög í Kauphöllinni (OMXI all-share) er hækkunin á árinu 35 prósent. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×