Viðskipti innlent

Guðrún tilnefnd til setu í stjórn Lífeyrissjóðs Verslunarmanna

Atli Ísleifsson skrifar
Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Samtaka iðnaðarins.
Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Samtaka iðnaðarins. Mynd/SI
Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Samtaka iðnaðarins, hefur verið tilnefnd til setu í stjórn Lífeyrissjóðs verslunarmanna. Hún mun taka sæti í mars.

Í tilkynningu frá Samtökum iðnaðarins segir að tilnefningin sé til næstu þriggja ára líkt og reglur sjóðsins kveði á um. Helgi Magnússon ákvað fyrir nokkru síðan að gefa ekki kost á sér til áframhaldandi setu í stjórn lífeyrissjóðsins.

„Á aðalfundi Samtaka iðnaðarins í mars á síðasta ári fólu félagsmenn stjórn að setja sér starfsreglur. Síðustu mánuði hefur stjórnin unnið að því og voru starfsreglur stjórnar samþykktar á stjórnarfundi nú í janúar. Þar er skýrt kveðið á um allar tilnefningar samtakanna í hinar ýmsu stjórnir. Sérstök valnefnd skal leggja fram tillögu til stjórnar um tilnefningar í stjórnir lífeyrissjóða. Sett er 6 ára hámark á setu stjórnarmanna SI í lífeyrissjóðum sem er í samræmi við hámarkssetutíma í stjórn SI og er einnig í samræmi við reglur SA um sama efni.

Guðrún Hafsteinsdóttir er fjórði forystumaður iðnaðarins sem tekur sæti í stjórn Lífeyrissjóðs verslunarmanna. Davíð Sch. Thorsteinsson og Víglundur Þorsteinsson áttu sæti í stjórn sjóðsins um árabil og Helgi Magnússon hefur setið í stjórninni sl. 9 ár,“ segir í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×