Viðskipti innlent

Fleiri heimili með lán í skilum hjá Íbúðalánasjóði

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Miðbær Reykjavíkur. Eignasafn Íbúðalánasjóðs minnkaði meira á síðasta ári en að hafði verið stefnt.
Miðbær Reykjavíkur. Eignasafn Íbúðalánasjóðs minnkaði meira á síðasta ári en að hafði verið stefnt. Fréttablaðið/Vilhelm
Heimilum með lán í vanskilum fækkaði um 1.016 milli 2014 og 2015, að því er fram kemur í nýrri mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs.

Fækkunin nemur 39 prósentum, úr 2.563 lánum í 1.547. Í lok árs voru 96,5 prósent heimila með lán sín í skilum, samanborið við 94,5 prósent í árslok 2014.

Í desember nam fjárhæð vanskila útlána til einstaklinga 3,1 milljarði króna og undirliggjandi lánavirði 31,1 milljarður, eða um 5,9 prósent útlána sjóðsins til einstaklinga. 

Þá nam hlutfall vanskila hjá lögaðilum tæpum þremur milljörðum króna og undirliggjandi lánavirði 17,3 milljarðar, að því er fram kemur í mánaðarskýrslunni. 

„Vanskil eða frystingar ná samtals til 7,2 prósenta lánasafnsins, en sambærilegt hlutfall í desember 2014 var 10,02 prósent,“ segir í skýrslunni.

Þá kemur fram að á síðasta ári hafi fullnustueignum Íbúðalánasjóðs fækkað um 542, en seldar eignir voru 898 á sama tíma og við bættust 356. Stefnt hafði verið að fækkun upp á 440 eignir. „Niðurstaða ársins fer því fram úr væntingum.“

Áætlanir sjóðsins gera ráð fyrir að 900 eignir verði seldar á þessu ári auk þess sem Leigu­fé­lagið Klettur hefur verið sett í sölu­ferli.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×