Viðskipti innlent

Vettvangur fyrir hugmyndir

Viktoría Hermannsdóttir skrifar
Edda segir mikilvægt að fólk sé óhrætt við að hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd og um það verður meðal annars rætt á fundinum.
Edda segir mikilvægt að fólk sé óhrætt við að hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd og um það verður meðal annars rætt á fundinum. Fréttablaðið/Anton Brink
„Við viljum skapa umræðu og veita fólki innblástur til þess að þora að hrinda hugmyndunum sínum í framkvæmd,“ segir Edda Konráðsdóttir, verkefnastjóri hjá Icelandic Startups. Í hádeginu í dag verður haldið svokallað nýsköpunarhádegi í Bíói Paradís. Icelandic Startups sem hefur umsjón með Gullegginu stendur fyrir viðburðinum í samstarfi við Nýherja og Stjórnvísi.

Hugmyndin að fundinum kviknaði út frá tölfræðiniðurstöðum fyrir keppnina sem sýna ójafnt kynjahlutfall keppenda í Gullegginu en þar hallar verulega á konur. „Við viljum skoða af hverju færri konur taka þátt en við erum ekki endilega að einblína á það á fundinum. Við viljum vera hvetjandi fyrir fólk af báðum kynjum. Við erum að velta því upp hvað það er sem stoppar fólk í því að hrinda góðum hugmyndum í framkvæmd.“

Markmið fundarins er að veita fólki innblástur og sýna fram á að það eru engar hindranir ef fólk veit hvað það vill og hvert það stefnir. Elínrós Líndal stýrir fundinum og í panel sitja þau Ragnheiður H. Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri hjá Hugsmiðjunni, Erla Björnsdóttir, framkvæmdastjóri hjá Betri svefni, Sigurður Arnljótsson hjá SA Framtaki og Bergur Finnbogason, Creat­ive Producer hjá CCP, auk þess sem Helga Valfells, framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, verður með hvatningarorð í upphafi fundar.

Þetta er í níunda sinn sem Gulleggið er haldið en hægt er að skila inn umsóknum í keppnina til og með 20. janúar. „Markmiðið með keppninni er að skapa vettvang þar sem ungt fólk getur mótað nýjar viðskiptahugmyndir. Þetta er tækifæri fyrir frumkvöðla til að koma hugmyndunum áfram og gera eitthvað,“ segir Edda.

Áhorfendur í sal geta tekið þátt í fundinum með því að setja inn spurningar undir myllumerkinu #EngarHindranir á Twitter. Fundurinn hefst klukkan 12 og aðgangur er ókeypis. Viðburðurinn verður einnig í beinni útsendingu og tenglinum á streymið verður deilt á viðburðinn á Facebook. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×