Viðskipti innlent

Fjárfestingaheimildir lífeyrissjóðanna rýmkaðar verulega

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Seðlabanki Íslands.
Seðlabanki Íslands. vísir/gva
Seðlabanki Íslands hefur ákveðið að veita lífeyrissjóðum sem hafa starfsleyfi, ásamt örðum innlendum vörsluaðilum séreignarsparnaðar, heimild til fjárfestingar í fjármálagerningum fyrir 20 milljarða króna á fyrstu fjórum mánuðum ársins. Í júlí síðastliðnum var sömu aðilum veitt undanþága til erlendrar fjárfestingar að fjárhæð 10 milljarða króna sem dreifðist á síðari árshelming þess árs.

Í greinargerð frá Seðlabankanum segir að gjaldeyrisinnstreymi á nýliðnu ári og minni óvissa um þróun greiðslujafnaðar í framhaldi af samþykkt kröfuhafa slitabúa fallinna fjármálafyrirtækja á frumvörpum til nauðasamninga hafi skapað svigrúm til frekari fjárfestingar lífeyrissjóða og annarra vörsluaðila séreignarsparnaðar í fjármálagerningum útgefnum í erlendum gjaldeyri.

„Í slíkum fjárfestingum felst þjóðhagslegur ávinningur þar sem lífeyrissjóðunum er gert mögulegt að bæta áhættudreifingu í eignasöfnum á sama tíma og dregið er úr uppsafnaðri erlendri fjárfestingarþörf lífeyrissjóðanna þegar fjármagnshöft verða losuð. Þar með er dregið úr hættu á óstöðugleika við losun fjármagnshafta.  Til lengri tíma litið hafa þessar auknu heimildir sjóðanna næstu mánuði engin áhrif á gjaldeyrisstöðuna því gera má ráð fyrir að gjaldeyriskaup lífeyrissjóðanna á næstu mánuðum muni draga úr þörf þeirra til gjaldeyriskaupa í framtíðinni,“ segir í greinargerðinni.

Þá segir að fjárfestingarheimildinni verði skipt á milli lífeyrissjóðanna og annarra vörsluaðila með þeim hætti að annars vegar verði horft til samtölu eigna sem fær 80% vægi og hins vegar til iðgjalda að frádregnum lífeyrisgreiðslum sem fær 20% vægi. Útreikningurinn byggir á upplýsingum úr síðustu ársreikningabók Fjármálaeftirlitsins um lífeyrissjóði, þ.e. tölum frá árinu 2014. Mun undanþágan miðast við að heimild hvers aðila gildi til 30. apríl 2016.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×