Viðskipti innlent

Fallist á breytingar á uppbyggingarkröfum tíðniheimildar 365 miðla

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Ríkisstjórnin hyggst verja 500 milljónum í ljósnetsvæðingu.
Ríkisstjórnin hyggst verja 500 milljónum í ljósnetsvæðingu. vísir/pjetur
Póst- og fjarskiptastofnun hefur tekið ákvörðun um að draga úr útbreiðslu- og uppbyggingarkröfum til 365 miðla um 4G þjónustu, eftir ákvörðun ríkisstjórnarinnar um ljósleiðaravæðingu á landsbyggðinni. 

Samkvæmt kröfunum er félaginu gert að bjóða 99,5 prósent lögheimila og vinnustaða á öllum landssvæðum háhraða farnetsþjónustu fyrir árslok 2016. Ákvörðunin felur í sér að félagið skuldbindi sig nú til að bjóða farnetsþjónustu sem nær til 97 prósent heimila fyrir árslok 2016 og til 99,5 prósent heimila fyrir árslok 2026.

Stofnuninni barst erindi frá 365 miðlum í apríl síðastliðnum þar sem óskað var eftir tilslökun á þessum kröfum, það er að boðið verði upp á 10 Mb/s gagnamagnshraða fyrir árslok 2016 og 30 Mb/s gagnamagnshraða fyrir árslok 2020.

Félagið taldi að heimilað samstarf Fjarskipta hf (Vodafone) og Nova ehf til uppbyggingar á sameiginlegu dreifikerfi félaganna annars vegar og skýrsla starfshóps innanríkisráðherra um ljósleiðaravæðingu fæli í sér forsendubrest sem félagið tók á sig í uppboði stofnunarinnar.

Forsendur breyttust eftir ákvörðun ríkisstjórnarinnar

Stofnunin féllst ekki á að samstarf Fjarskipta og Nova hefði haft áhrif á forsendur uppbyggingarkrafna tíðniheimildarinnar. Aftur á móti taldi hún að fjárlög fyrir árið 2016, þar sem yfir 500 miljónum er varið til fjarskiptasjóðs til uppbyggingar á ljósleiðaraneti á landsbyggðinni, feli í sér breytingar á forsendum sem lágu að baki þeim kröfum sem gerðar voru í uppboði stofnunarinnar.

Þá komst stofnunin einnig að því að það falli að lögbundnum verkefnum hennar, um örvun samkeppni og skilvirkni í uppbyggingu fjarskiptainnviða, neytendum til hagsbóta, að fallast á að ákveðnar tilslakanir verði gerðar á kröfum tíðniheimildarinnar.

Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri 365 miðla, segir þessar breytingar afar þýðingarmiklar fyrir fyrirtækið.

„Þetta hefur þá þýðingu að í stað þess að við séum að fara í uppbyggingu á farsímakerfi sem á að ná til dreifðustu byggða landsins, sem myndi kosta nokkra milljarða, þá getum við nýtt ljósleiðarauppbyggingu ríkisstjórnarinnar til þess að tryggja að bændur og ferðamenn í landinu fái aðgang að farsímakerfi sem er byggt upp fyrir brot af því sem það hefði annars kostað. Þetta gerum við með því að nýta okkur það að það verði búið að tengja ljósleiðara inn að dreifbýlinu og setjum upp smásellur, litla farsímasenda, sem nýta sér rafmagnið sem er til staðar á bóndabæjunum og ljósleiðaratenginguna á hverjum stað og náum þannig þannig að vera með mun hagstæðari uppbyggingu á farsímaþjónustu en áður hefur þekkst,“ segir hann og bætir við að þessi ákvörðun komi til með spara fyrirtækinu töluvert í uppbyggingu.

Hrafnkell V. Gíslason, forstjóri Póst- og fjarskiptastofnunar, segir að með þessu geti 365 miðlar eflt uppbygginguna sem ríkisvaldið muni fjármagna og byggja upp hagkvæmara net. „Fyrir hinn almenna borgara þýðir þetta það að ef 365 byggir upp þetta kerfi er hægt að gera það á hagkvæmara verði. Þetta eru býsna miklar kröfur, að það eigi að ná til 99 prósent landsmanna; 95 prósent í þéttbýli og 5 prósent utan þess. Þetta eru allt nema innan við þúsund heimili á landinu sem er gríðarlega mikið,“ segir hann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×