Fastir pennar

Lýðræði gegn forréttindum

Þorvaldur Gylfason skrifar
Allar götur frá stríðslokum 1945 til ársins 1990 voru lýðræðisríki heimsins færri en einræðisríkin. Þetta voru ár kalda stríðsins þar sem lýðræðisríki og einræðisríki tókust á um hugi og hjörtu heimsbyggðarinnar og um yfirráð og veitti ýmsum betur. Taflið snerist við þegar Sovétríkin hrundu um 1990. Lýðræðisríkjum tók þá að fjölga hratt.

Staðan er þessi: Lýðræðisríkin í heiminum eru nú tæplega 100 en voru um 50 árið 1989. Einræðisríkin eru um 20 talsins en voru um 50 árið 1989. Fáræðisríkin sem liggja einhvers staðar mitt á milli einræðis og lýðræðis skv. flokkun stjórnmálafræðinga eru nú rösklega 50 líkt og 1989. Frá 2010 hefur einræðisríkjum haldið áfram að fækka. Fáræðisríkjum hefur fjölgað að sama skapi. Fjöldi lýðræðisríkja hefur því staðið í stað frá 2010.

Svo bregðast krosstré

Lýðræði á nú í vök að verjast að lokinni tveggja áratuga sigurgöngu um heiminn 1990-2010. Þróun stjórnmála í Rússlandi og flestum suðurríkjum Sovétríkjanna sálugu eftir fall kommúnismans hefur t.d. valdið vonbrigðum, einkum þeim sem héldu að Rússar og nágrannar þeirra í suðri myndu líkt og Eystrasaltsríkin taka upp lýðræði auk markaðsbúskapar eftir 1990. Nú sjá menn að lýðræði þar eystra lætur á sér standa.

Við bætist að markaðsbúskapur í okkar heimshluta nýtur nú ekki lengur sama trausts og sömu viðurkenningar og hann gerði áður þar eð bankahremmingar síðustu ára hafa grafið undan tiltrú almennings. Kapítalistar komu óorði á kapítal­ismann. Aukinn ójöfnuður lagðist á sömu sveif. Og nú hefur það bætzt við að lýðræði á undir högg að sækja jafnvel þar sem sízt skyldi – í sjálfum Bandaríkjunum, brjóstvörn lýðræðisins frá stríðslokum 1945.

Tölur Gallups um traust tala skýru máli. Engin samfélagsstofnun í Bandaríkjunum nýtur nú minna trausts en þingið í Washington og hefur svo verið samfleytt frá 2010. Aðeins 9% Bandaríkjamanna treysta nú þinginu (var 42% 1973). Þetta þarf ekki að vera svona eins og sjá má af því að 73% Bandaríkjamanna segjast treysta hernum. Röskur þriðjungur Bandaríkjamanna (36%) treystir Hæstarétti (var 49% 1975) og 36% treysta forsetanum (var 52% 1975). Þverrandi traust hefur tærandi áhrif á samfélagið og smitar út frá sér. Samfélagslímið losnar.

Nýlega birti Alan Krueger prófessor í Princeton-háskóla, fv. efnahagsráðgjafi Baracks Obama forseta, rannsókn þar sem fram kemur að níundi hver bandarískur karlmaður (11%) á aldrinum 24-54 ára hefur gefizt upp við að leita sér að vinnu og er þessi hópur því ekki skráður meðal atvinnulausra. Næstum helmingur þessa hóps tekur verkjastillandi lyf að staðaldri. Þetta var ekki svona.

Laskað lýðræði

Bandaríkin fá ekki lengur hæstu einkunn fyrir frelsi og lýðræði hjá Freedom House sem kortleggur lýðræði um heiminn. Lawrence Lessig, lagaprófessor í Harvard-háskóla, lýsti vandanum vel í fyrirlestri í hátíðasal Háskóla Íslands fyrr í vikunni. Fjársterkir aðilar hafa mikil áhrif á val frambjóðenda flokkanna, einkum eftir að Hæstiréttur Bandaríkjanna ruddi úr vegi hamlandi lögum um hámarksframlög til stjórnmálastarfsemi 2010. Bandarískir þingmenn neyðast til að hegða sér eins og keyptir þjónar styrkveitenda. Tveir af hverjum 10.000 Bandaríkjamönnum veita stjórnmálamönnum umtalsverða fjárstyrki. Kjósendur fá því aðeins að velja á milli frambjóðenda sem fáeinir auðmenn hafa í reyndinni stillt upp. Aðrir frambjóðendur koma ekki til álita. Fólkið fær að kjósa, já, en forréttindastéttin velur frambjóðendurna. Þannig var þetta einnig í Sovétríkjunum, og þannig er þetta í Íran þar sem klerkarnir velja frambjóðendur og í Hong Kong þar sem kommúnistastjórnin í Beijing velur frambjóðendur eins og Lessig lýsti í fyrirlestri sínum. Jane Mayer, blaðamaður á New Yorker, kortleggur vandann í nýrri bók, Dark Money.

Við sama borð

Frjálsar kosningar tryggja ekki óskorað lýðræði ef forréttindahópar ráða vali frambjóðenda. Styrmir Gunnarsson, fv. ritstjóri Morgunblaðsins, lýsti vandanum vel þegar hann sagði að það „jafngilti pólitísku sjálfsmorði að rísa upp gegn handhafa kvóta á landsbyggðinni“ (Umsátrið, bls. 206). Í þessu ljósi þarf að skoða andstöðu t.d. Morgunblaðsins nú gegn staðfestingu nýju stjórnarskrárinnar sem kveður á um afnám ýmissa forréttinda, m.a. með ákvæðum um auðlindir í þjóðareigu og jafnt vægi atkvæða sem yfirgnæfandi hluti kjósenda lýsti stuðningi við í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012. Við þurfum öll að fá að sitja við sama borð.

Það er álitshnekkir fyrir Bandaríkin að Freedom House gefur landinu ekki lengur hæstu einkunn fyrir frelsi og lýðræði. Hætt er við að einkunn Íslands muni einnig falla, og þá um leið álit Íslands meðal annarra þjóða, nema Alþingi staðfesti nýju stjórnarskrána eftir kosningar svo sem Píratar og a.m.k. þrjú önnur framboð leggja þunga áherzlu á. Kjósendur hafa málið nú í hendi sinni.

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.


×