Fastir pennar

Tóbaksvarnir og vísindi

Þorvaldur Gylfason skrifar
Fimmta hvert dauðsfall fullorðinna karlmanna á Indlandi má rekja til reykinga og 20. hvert dauðsfall meðal indverskra kvenna. Þetta gerir næstum milljón dauðsföll á ári. Þannig getum við rakið kapalinn land úr landi. Tóbak er skaðlegt.

Hagfræðingar kunna nú betur en áður ráð til að meta áhrif verðlagningar og skattlagningar á tóbaksverð til að svara spurningum eins og þessari: Hversu mikið þarf að hækka tóbaksskatta til að draga svo og svo mikið úr reykingum? Angus Deaton, skozkur prófessor í Princeton-háskóla, hlaut Nóbelsverðlaun í hagfræði í fyrra m.a. fyrir að búa til betri aðferð til að meta slík áhrif en áður hafði þekkzt. Þetta er gagnleg vitneskja. Frakkar reyktu sex sígarettur á mann á dag 1990 eins og Indverjar. Frönskum stjórnvöldum tókst að lækka töluna niður í þrjár sígarettur á mann á dag 2005 með því að þrefalda sígarettuverð með skattlagningu. Þreföldun verðs á sígarettum dró sem sagt úr reykingum um helming. Lungnakrabbatíðni hríðlækkaði.

Smart að reykja

Fram til 1964 þótti smart að reykja. Fræg auglýsing frá Chesterfield sýndi prúðbúið par á bekk þar sem hann sést kveikja sér í og hún segir: Blástu reyknum á mig.

Í árdaga sígarettunnar um aldamótin 1900 reyktu Bandaríkjamenn 50 sígarettur á mann á ári. Munntókbak var þá miklu algengara, einnig vindlar. Árið 1930 var talan komin upp í 1.400 sígarettur á mann 18 ára og eldri og 3.300 árið 1950 skv. upplýsingum landlæknis Bandaríkjanna. Lungnakrabbi breiddist út eins og eldur í sinu. Árið 1930 dró lungnakrabbi 3.000 Bandaríkjamenn til dauða og 18.000 manns 1950. Læknar lögðust yfir tölurnar. Bandarískur læknir og læknanemi báru tæplega 700 sjúklinga með lungnakrabba við jafnstóran hóp sambærilegra sjúklinga án krabbameins í lungum og komust að því að reykingar voru 7,5 sinnum tíðari í fyrri hópnum. Þegar læknirinn sá niðurstöðuna hætti hann sjálfur að reykja. Brezkir læknar drógu sömu ályktun af sínum gögnum. Þetta var 1950. Rannsóknir á sambandi tóbakstjöru og krabba bar að sama brunni. Tölurnar hér eru sóttar í nýja bók Phishing for Phools eftir George Akerlof og Robert Shiller sem báðir hafa hlotið Nóbelsverðlaun í hagfræði.

Tóbaksfyrirtækjunum var ekki skemmt. Þau andmæltu þó ekki niðurstöðum vísindamannanna, heldur gripu þau til þess ráðs að reyna að sá efasemdum meðal almennings. Þau tefldu fram vísindamönnum sem héldu því fram að ekki hefði tekizt að færa sönnur á sambandið milli reykinga og krabba. Þau settu á laggirnar stóra rannsóknastofnun þar sem vísindamenn undir forustu Clarence Little, sem hafði áður verið háskólarektor í Maine og Mich­igan, héldu því fram fullum fetum að lungnakrabbi væri bundinn við erfðir og því allsendis óháður umhverfisáhrifum og þá um leið reykingum. Þegar þeim var ekki lengur stætt á þeim málflutningi, tóku Little og félagar hans að halda því fram að ágreiningur væri um málið meðal vísindamanna líkt og sumir halda því nú fram að ágreiningur sé um hlýnandi loftslag, miklahvell o.fl.

Straumhvörf 1964

Landlæknir Bandaríkjanna skakkaði leikinn 1964 og skákaði tóbaksfyrirtækjunum til hliðar um skeið þegar hann kynnti almenningi nýjar rannsóknir á sambandi reykinga og dauðsfalla í Bandaríkjunum, Kanada og Bretlandi. Þær tóku af tvímæli um sambandið milli tóbaksreykinga og lungnakrabba og ýmissa annarra sjúkdóma. Tóbaksfyrirtækin létu sér ekki segjast. Þau beittu málsfrelsisákvæðum stjórnarskráinnar til að standa á rétti sínum til að auglýsa tóbak.

Andstæðingar reykinga áttu krók á móti bragði: þeir sýndu myndir af brunnum lungum í sjónvarpsauglýsingum og fengu tóbaksfyrirtækin þannig til að falla frá auglýsingum í útvarpi og sjónvarpi en ekki á prenti. Andstæðingum tókst einnig að knýja fram bann við reykingum á almannafæri, m.a. í veitingahúsum og á vinnustöðum, fyrst í Arizona 1973 og síðan í 27 öðrum fylkjum.

Stríðið stendur enn

Þegar skýrsla landlæknis Bandaríkjanna var birt 1964 reyktu 42% fullorðinna Bandaríkjamanna, 53% karla og 31% kvenna. Meðaltalið var tæplega hálfur annar pakki á dag. Nú reykja 18% Bandaríkjamanna, 20% karla og 15% kvenna. Meðaltalið er tæpur pakki á dag. Þetta er framför. Eigi að síður telja bandarísk yfirvöld að fimmta hvert dauðsfall þar vestra 2005-2009 megi rekja til tóbaksreykinga. Um fjórðungur fulltíða Frakka, Kínverja og Þjóðverja reykir sígarettur og rösklega þriðji hver Rússi. Íslendingar og Norðmenn reykja mun minna en Bandaríkjamenn, Danir, Finnar og Svíar. Fjórir af hverjum fimm reykingamönnum heimsins búa í fátækum löndum.


×