Viðskipti erlent

Lúxusjólapartí Wall Street haldin í leyni

Sæunn Gísladóttir skrifar
Fjármálafyrirtæki á Wall Street hafa haft hljótt um jólaveislur sínar í ár.
Fjármálafyrirtæki á Wall Street hafa haft hljótt um jólaveislur sínar í ár. Vísir/AFP
Frá því að hafa náð hæstu hæðum í kostnaði í kringum árið 2007 minnkaði umfang jólaveislna fjármálafyrirtækja á Wall Street eftir að efnahagskreppan skall á árið 2008. Reuters greinir frá því að nú séu veislurnar þó að verða stærri í sniðum á ný, skipuleggjendur vilja þó oft ekkert ræða um þær.

Matráðsmenn og veisluskipuleggjendur sem Reuters ræddi við segja að þó að ekki sé varið jafn miklu í veislurnar og fyrir árið 2008 sé nú meiri bjartsýni yfir fjármálamarkaðnum og fleiri hafi farið í veislur á Wall Street í ár en í fyrra.

Þemu sem meðal annars voru notuð í ár voru vetrarævintýraland og kjötkveðjuhátíð og voru flottir myndatökuklefar og leikjastöðvar í veislunum. Partíin voru haldin í New York, London, Boston, Sydney og í Póllandi svo eitthvað sé nefnt. Venjulega verja fyrirtæki um 100 til 200 þúsund dollurum í veislurnar eða allt að 25 milljónum króna. Einn viðburðaskipuleggjandi sagði í samtali við Reuters að flestir eigi það sameiginlegt að vilja ekki að almenningur viti að verið sé að halda lúxuspartí, því sé mörgu haldið leyndu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×