Kobe Bryant kveður NBA-deildina í körfubolta í kvöld þegar Los Angeles Lakers tekur á móti Utah Jazz í síðasta leik liðsins á tímabilinu.
Kobe Bryant er þarna að spila síðasta leikinn á tuttugasta tímabili sínu en hann gaf það út snemma á tímabilinu að þetta væri hans síðasta leiktíð í NBA-deildinni.
Kobe Bryant er einn af bestu NBA-leikmönnum sögunnar og þrátt fyrir skelfilegt tímabil hjá liðinu hefur verið mikill áhugi á kveðjuför kappans.
Áhuginn á lokaleik Kove er hinsvegar sögulegur. Miðar á leikinn í Staples Center eru að seljast á stórar upphæðir og þá hafa á milli fjögur og fimm hundruð blaðamenn sótt um passa á leikinn í kvöld.
Af þessum allt að fimm hundruð fjölmiðlamönnum eru 60 erlendir blaðamenn. Fjölmiðlafulltrúi Los Angeles Lakers sem hefur verið í þessu starfi í 26 ár hefur aldrei séð annan eins áhuga.
Það er aðeins pláss fyrir 225-250 fjölmiðlamenn í aðstöðu blaðamanna í Staples Center sem þýðir að um helmingur þeirra þarf að halda kyrru fyrir í blaðamannaherberginu á meðan leiknum stendur.
Erlendu blaðamennirnir koma frá Brasilíu, Ástralíu, Suður-Kóreu, Filippseyjum, Tyrklandi, Kína, Tævan, Frakklandi, Ítalíu, Argentínu, Síle, Þýskalandi, Englandi, Japan og Mexíkó en enginn íslenskur blaðamaður hefur sótt um leyfi.
Eini leikurinn i deildarkeppni NBA í gegnum tíðina sem kemst nálægt þessum hvað varðar öfgaáhuga varðar er þegar Michael Jordan snéri aftur í lið Chicago Bulls 19. mars 1995.
Blaðmönnum fjölgaði úr 80 í 300 á aðeins 24 tímum og forráðamenn Indiana Pacers komu aðeins 150 þeirra fyrir inn í höllinni. Þeir þurftu einnig að hafna umsóknum frá um 100 til 150 manns.
Fimm hundruð fjölmiðlamenn á síðasta leik Kobe Bryant
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
