Viðskipti innlent

Snjallsímasala minnkar

Sæunn Gísladóttir skrifar
Vöxtur í snjallsímasölu hefur dregist verulega saman á Vestrænum markaði.
Vöxtur í snjallsímasölu hefur dregist verulega saman á Vestrænum markaði. Vísir/EPA
Frá því að fyrsti iPhone-snjallsími Apple var kynntur árið 2007 hafa helstu tækniframleiðendur heims keppst við að mæta kröfum neytenda um nýrri, betri og hraðari síma. Milljarðar snjallsíma hafa selst á síðustu níu árum, en nú benda sölutölur til þess að salan sé að minnka.

Samkvæmt nýjum tölum frá greiningarfyrirtækinu IDC mun vöxtur á snjallsímamarkaði einungis nema 1,6 prósentum á árinu og 1,46 milljarðar síma verða seldir. Þetta eru háar sölutölur en vöxturinn er að dragast töluvert saman samanborið við fyrri ár, en milli áranna 2014 og 2015 var söluvöxturinn 10,6 prósent.

Greiningaraðilar IDC spá því að á vestrænum markaði muni sala dragast saman á árinu, eini vöxturinn á markaði muni koma frá nýmarkaðsríkjum.

Neytendur virðast sífellt ánægðari með snjallsíma sína og finna fyrir lítilli þörf til að skipta þeim út og því eru færri að kaupa snjallsíma. Sala dróst til að mynda saman á iPhone-snjallsímum í fyrsta sinn milli ára á fyrsta og öðrum ársfjórðungi 2016.

Sala snjallsíma gæti komist á flug á ný ef fleiri sækjast eftir að nýta sér sýndarveruleikatækni. Samsung og Google hafa bæði framleitt slíkar græjur sem styðjast við snjallsíma þeirra. Einnig telja greiningaraðilar að aukin eftirspurn á stærri skjáum gæti ýtt undir vöxt í sölu á ný.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×