Viðskipti innlent

Gjaldþrotum fækkaði um 27% árið 2015

ingvar haraldsson skrifar
Gjaldþrotum fer fækkandi.
Gjaldþrotum fer fækkandi.
Gjaldþrotum einkahlutafélaga á árinu 2015 fækkaði um 27% frá fyrra ári samkvæmt því sem fram kemur á vef Hagstofunnar.

Alls voru 587 fyrirtæki tekin til gjaldþrotaskipta á árinu, samanborið við 799 árið áður. Hlutfallslega fækkaði gjaldþrotum á árinu 2015 mest í fjármála- og vátryggingarstarfsemi, þar sem þau voru 32 árið 2015 borið saman við 56 árið 2014 eða um 43%. Gjaldþrotum fækkaði í öllum helstu atvinnugreinabálkum milli áranna 2014 og 2015. Hlutfallslega fækkaði þeim hægast í fasteignaviðskiptum, eða um 8% milli ára, úr 80 gjaldþrotum í 74.

Ef skoðuð er skipting á gjaldþrotum eftir landsvæði sést að gjaldþrotum fækkaði hlutfallslega mest á Norðurlandi eystra, þar sem 12 fyrirtæki voru tekin til gjaldþrotaskipta árið 2015, borið saman við 43 árið áður eða um 72%. Mest hlutfallsleg fjölgun gjaldþrota milli ára var á Suðurlandi, þar sem 63 fyrirtæki voru tekin til gjaldþrotaskipta árið 2015, borið saman við 49 árið áður sem er fækkun um 29%.

Gjaldþrotum fækkaði verulega milli ára.mynd/hagstofan
Nýskráningum einkahlutafélaga á árinu 2015 fjölgaði um 16% frá árinu 2014. Alls voru 2.368 ný félög skráð á árinu, borið saman við 2.050 árið áður. Hlutfallsleg fjölgun nýskráninga var mest í fasteignaviðskiptum, þar sem þeim fjölgaði milli ára úr 222 í 352, eða um 59% frá fyrra ári. Meðal annarra greina þar sem nýskráningum fjölgaði má nefna byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð þar sem nýskráningum fjölgaði úr 223 í 292 og rekstur gististaða og veitingarekstur þar sem fjölgunin var úr 131 í 169 nýskráningar. Mest hlutfallsleg fækkun nýskráninga árið 2015 var í upplýsingum og fjarskiptum, eða um 8% borið saman við fyrra ár (úr 185 nýskráningum í 171).

Ef skoðuð er skipting á nýskráningum einkahlutafélaga og hlutafélaga milli landshluta árið 2015 sést að þeim fjölgaði hlutfallslega mest á Vesturlandi, þar sem 81 félag var nýskráð árið 2015, borið saman við 57 nýskráningar árið 2014, um 42%. Mestur hlutfallslegur samdráttur á nýskráningum milli ára var á Vestfjörðum, þar sem 34 félög voru nýskráð árið 2015, borið saman við 46 árið áður sem samsvarar 26% fækkun.

Nýskráningum fer fjölgandi.mynd/hagstofan





Fleiri fréttir

Sjá meira


×