Innlent

Tossabekkir: Kerfi sem niðurlægði nemendur

Viktoría Hermannsdóttir skrifar
Börnin í tossabekkjunum fupplifðu mörg mikla niðurlægingu og skömm við að vera í slikum bekk. Myndin tengist ekki efni fréttarinnar beint.
Börnin í tossabekkjunum fupplifðu mörg mikla niðurlægingu og skömm við að vera í slikum bekk. Myndin tengist ekki efni fréttarinnar beint. Mynd/Ljósmyndasafn Reykjavíkur
„Þetta var mjög ósanngjarnt kerfi að mínu viti. Það byggði ekki á nokkrum sköpuðum hlut nema einhverri punktstöðu nemenda sem var tekin sennilega í lestri,“ segir Ragnar Þorsteinsson, kennari og fyrrverandi fræðslustjóri Reykjavíkurborgar, um svokallaða tossabekki sem voru við lýði í stærri skólum á Íslandi allt fram til ársins 1974 þegar ný grunnskólalög tóku gildi.

Skólastjórnendur skiptu nemendum upp í bekki eftir getu þeirra og voru getuminnstu nemendurnir settir saman í bekki sem iðulega voru kallaðir tossabekkir. Yfirleitt var bekkjunum skipt eftir bókstöfum, því neðar sem bekkurinn var í stafrófinu því minni var getan. Nokkurs konar stéttaskipting tíðkaðist þar sem börn efnaminni foreldra lentu frekar í þessum neðri bekkjum.

Börnunum sýnt virðingarleysi

„Félagslegar afleiðingar voru helsta tilefni gagnrýni á þetta kerfi,“ segir Gretar L. Marínósson, skólasálfræðingur og prófessor í sérkennslufræðum við Menntavísindasvið HÍ, sem þekkir vel til tossabekkjanna.

Hann segir skiptingu nemenda eftir getu eða greindarvísitölu og áhrif hennar á nemendur lítið hafa verið rannsakaða hérlendis en meira erlendis, t.d í Bretlandi. Margir sem Fréttablaðið hefur rætt við segja það hafa falið í sér mikla niðurlægingu og skömm að vera settur í slíkan bekk. Oft hafi verið illa komið fram við þau börn, mörg þeirra lögð í einelti og almennt sett skör neðar en aðrir nemendur. Margir tala líka um að kennarar hafi oft stjórnað eineltinu og niðurlægt börnin. Það er þó alls ekki algilt og sumir tala um kennara sem hafa verið þeim góðir.

Það var þekkt að reynslulitlir kennarar kenndu þessum bekkjum eða kennarar sem ekki þóttu þeir bestu. Ekki virðast hafa verið gerðar miklar kröfur til kennslunnar, öfugt við það sem hefði kannski átt að vera þar sem oft var um að ræða börn sem glímdu við námserfiðleika. Sjálfur kenndi Gretar í slíkum bekk. „Það var hluti af því virðingarleysi sem þessum krökkum var sýnt. Þegar ég var að kenna „tossabekk“ þá var ég nýskriðinn úr menntaskóla. Ég bað ekki um þennan bekk en þetta sýnir að það voru ekki miklar kröfur gerðar til kennslunnar og það var víðar en þar sem ég kenndi. Kennarar sem voru orðnir gamlir og leiðir á kennslu eða nýliðar sem kunnu ekki að kenna voru settir í þessa bekki. Það var til þess að gera hlutina enn þá erfiðari. Það var ekki líklegt að þeir gætu bætt námsfærnina hjá krökkunum.“

Ragnar var einnig að kenna í slíkum bekk. „Ég byrjaði að kenna í Breiðholtsskóla 1973, ári áður en grunnskólalögin komu. Ég var settur í að kenna svona bekk, það kenndi mér helling. Þarna voru kannski 20 krakkar saman í bekk og nánast engir þeirra áttu sameiginlega ástæðu fyrir því að vera saman í bekk. Einn var kannski illa greindur á einhvern hátt, annar kannski með þroskaskerðingu og þriðji frá heimili þar sem ekkert var hugsað um hann. Niðurstaðan var sú að það var lítið um nám hjá þessum börnum og þau voru þess vegna bara sett í tossabekk,“ segir Ragnar.

Hér má sjá börn bíða eftir að komast upp í skólabíl fyrir utan Laugarnesskóla árið 1953. Einum viðmælenda var aldrei hleypt upp í skólabílinn og þurfti að ganga klukkutíma leið til og frá skóla.Mynd/Ljósmyndasafn Reykjavíkur, Sigurhans Vignir
Stéttaskipting eftir bekkjum 

Gretar vill ekki meina að börn efnaminni foreldra hafi sjálfkrafa verið sett í tossabekki, hins vegar kunni aðstöðumunur að spila inn í. Börn efnameiri foreldra gætu þannig hafa haft ákveðið forskot þegar þau byrjuðu í skóla. „Svo auðvitað spilar inn í þetta kenning Bourdie, Cultural Capital, þeir sem hafa góða menningarlega aðstöðu heima hjá sér hafa meiri möguleika á að standa sig betur í skóla. Ekki endilega vegna þess að þeir mælist hátt á greindarprófi, heldur kunna þeir að notfæra sér það sem þarf. Það voru frekar til bækur á þeim heimilum, þau bjuggu við góða fjárhagslega stöðu og lítið álag að öðru leyti.“

Ragnar segir það þó oft hafa verið tilfellið að skipting hafi ráðist af stöðu foreldranna. „Það var stéttaskipting í gangi, krakkar sem komu frá heimilum sem voru á verri stað í samfélaginu voru oft bara sett í tossabekk. Það var einhvern veginn oft fyrirfram ákveðið að krakkar gætu ekki þetta og hitt,“ segir Ragnar.

Þegar nýju grunnskólalögin voru sett 1974 höfðu margir áttað sig á þeim áhrifum sem það gat haft á börn að vera í þessum bekkjum. Skiptingin hafði breyst í sumum skólum og nýrri skólar tóku hana yfirleitt ekki upp. „Þeir sem skrifuðu námskrána sem byggð var á lögunum 1974 settu þar inn að það væri ekki mælt með því að raða samkvæmt námsgetu eða getu sem var mæld með greindarprófum. Það var í fyrsta sinn sem opinberir aðilar sögðu svona lagað. Það voru margir sem tóku tillit til þess og aðrir ekki. Eins og ég segi þá eru skólar enn í dag sem viðhalda þessu að einhverju marki. En röðunin er ekki eins nákvæm og sveigjanlegri að því leyti að krakkar geta flutt sig á milli,“ segir Gretar og útskýrir nánar.

Upplifðu sig sem lúsera 

„Áður var það yfirleitt þannig að fólk var bara í sama bekknum alla sína veru í skólanum. Ef það var í lélegasta bekknum þá hélt það áfram í honum. Það var mjög erfitt að fá betri einkunnir við þessar aðstæður. Krakkar voru þá fyrst og fremst að bera sig saman við þá sem voru með þeim í bekk,“ segir Gretar.

Að vera settur í slíkan bekk hafði oft slæm áhrif á sjálfsmynd barna.

„Yfirleitt hefur það þau áhrif að þú ferð að líta á þig eins og aðrir líta á þig. Þetta fer voðalega mikið eftir viðhorfi og viðmóti annarra sem þeir taka mark á. Þessir krakkar upplifa sig oft sem lélega. Þau hafa tilhneigingu til að loka sig af og hafa lítil samskipti við aðra hópa. Þau festast oft í þessu hlutverki. Það þýðir að það sem eftir er ævinnar hafa þau kannski ekki samskipti við fólk úr t.d. efri þjóðfélagsstigum, þetta festir fólk í ákveðnum þjóðfélagshópi alla ævi nema það geti rifið sig út úr honum og farið í allt annað umhverfi sem margir gera,“ segir Gretar.

„Ég held þau hafi upplifað sig sem lúsera og tossa. Þetta voru einstaklingar sem áttu ekki séns í eitthvað sem aðrir áttu séns í og hvað gera menn þegar þeir lenda í þeirri stöðu, þá er betra að vekja neikvæða athygli á sér heldur en enga. Sumir gera þá hluti sem þeir hefðu mögulega ekki gert annars. Þetta býr frekar til vandamál heldur en að draga úr þeim,“ segir Ragnar.

Báðir eru þeir sammála um að því hafi fylgt mikil skömm að vera í slíkum bekkjum. Algengt var að börnum væri strítt og kennarar tækju þátt í að niðurlægja þau. „Það var langt frá því að vera algilt um kennara en þeir voru stundum sekir um að niðurlægja nemendur, nota það sem stjórntæki. Ég veit dæmi þess úr nokkrum skólum þar sem kennarar gengu á lagið og niðurlægðu nemendur því þeir höfðu þá hugmynd að það væri besta leiðin til að halda aga. Það var alltof algengt að fólk teldi að það þyrfti að herða börn og það væri best gert með því að gera þeim erfitt fyrir. Líka þetta viðhorf að fólk ætti að þekkja sinn vitjunartíma og vita í hvaða stöðu það væri og ekki reyna að færast í aðra hópa eða stöðu. Fólki hefur verið haldið niðri á marga vegu, aðallega til að fullnægja þörfum annarra til að vera yfir það hafin. En það áttu að vera gerðar kröfur til kennara um að vernda þessa krakka.“

Aðspurður hvort ekki sé um að ræða smánarblett á menntunarsögu þjóðarinnar segir Ragnar að líka verði að horfa til þess hvernig samfélagið var á þessum tíma. „Það er alltaf hægt að vera vitur eftir á í þessum málum sem og öðrum. Ég held að menn hafi ekki verið að gera þetta vitandi vits að þetta hefði slæm áhrif á börnin. Þetta var staðan á þeim tíma, börn voru sett á Silungapoll, Breiðuvík og þessa staði. Sem betur fer hefur kerfið þroskast og séð til að þetta myndi ekki gerast aftur. Þetta er ljót saga, því miður, og við eigum ekki að reyna að fegra hana heldur að læra af henni. Það hefur sýnt sig á margan hátt í gegnum tíðina að hjá mörgum einstaklingum sem biðu skipbrot í þessu lífi þá byrjaði það í skólakerfinu. Við eigum að gera allt sem við getum til þess að gefa öllum börnum tækifæri. Ég hef lært það á mínum 40 ára ferli að það á aldrei að afskrifa börn.“

Árið 2013 birtist grein Teits Atlasonar í tímaritinu MAN þar sem hann fjallaði um tossabekki sem voru til staðar í Hagaskóla allt til ársins 2002 eða tæpum þremur áratugum eftir að grunnskólalögin 1974 voru sett. Rannsókn Teits leiddi í ljós að fjölmargir fyrrum nemendur í þessum bekkjum höfðu framið sjálfsmorð. Þar kom fram að þeir sem hafi verið í þessum bekkjum hafi margir orðið fyrir miklu einelti og aðkasti í skólanum. Nemendur sem Teitur ræddi við sögðu að lítið hefði verið um kennslu og margir upplifðu bekkina sem geymslustað.

Hafdís Hafsteinsdóttir Fréttablaðið/Ernir
Fékk ekki að fara með skólabílnum

"Það kemur upp vond tilfinning þegar ég hugsa um þessi ár,“ segir Hafdís Hafsteinsdóttir sem er fædd árið 1945 og var í Laugarnesskóla. Heimilisaðstæður hjá Hafdísi voru afar slæmar. Hún bjó hjá ömmu sinni sem glímdi við mikil veikindi og manni hennar. "Þar var mér lítið sinnt, ég var alltaf skítug og lúsug. Ég fékk aldrei neitt nýtt. Það var aldrei haldið upp á afmælið mitt og ég fékk ekki neinar afmælisgjafir fyrir utan að ein nágrannakona okkar gaf mér alltaf strigaskó á afmælisdaginn. Ég man hvað ég var leið þegar hún dó.“

Kennarar kölluðu hana tröllbarn

Hún fær ónotatilfinningu við að rifja upp æskuna sem hún segist þó muna að litlu leyti. Líklega hafi hún lokað á vondar minningar þó hún muni einstaka brot. Það var vont að vera afskiptur heima og ekki tók betra við þegar hún hóf skólagöngu.

Hún var sett í tossabekk í Laugarnesskóla. „Kennarnir kölluðu mig tröllabarnið því ég var stór miðað við aldur. Ég man ekki mikið frá þessum tíma en man mér leið aldrei vel. Ég átti enga vini og kennarnir niðurlægðu mig. Ég kom aldrei með neitt með mér í skólann því það var ekki til peningur fyrir neinu. Í minningunni var ég bara þarna og það talaði aldrei neinn við mig. Ég var alltaf ein.“ Gömul skólasystir Hafdísar sem blaðamaður ræddi við staðfestir þetta. Segir að illa hafi verið komið fram við Hafdísi, strákarnir hafi strítt henni og kennarar niðurlægt.

Þó að Hafdís hafi ekki átt neina vini þá man hún samt eftir einu skipti þar sem skólasystir hennar kom til hennar og gaf henni skauta. "Ég var svo ánægð því ég fékk aldrei neitt. Þetta voru svo fallegir hvítir skautar, hún hefur eflaust vorkennt mér. Í hvert skipti sem það kom frost þá fór ég niður á tjörn og skautaði þar ein. Ég notaði þessa skauta alveg þangað til þeir voru úr sér gengnir."

Mátti ekki koma í bílinn

Hafdís bjó við Seljalandsveg við Kringlumýrina í nágrenni við þar sem Safamýri er í dag og var því talsverð vegalengd að fara í skólann. Vegna þess þá bauðst nemendum að fara með skólabíl til og frá skóla, Hafdís fékk hins vegar ekki að fara í bílinn.

„Bílstjórinn vildi ekki leyfa mér að fara með bílnum og sagði að ég væri lúsug. Ég man einu sinni náði ég að smygla mér inn og hélt hann hefði ekki séð mig en hann sá mig og rak mig út. Ég labbaði því um klukkutíma leið fram og til baka á hverjum degi í hvaða veðri sem er. Þá var ekki búið að byggja svona mikið og allt fullt af hólum á leiðinni og það tók sinn tíma að komast. Það sem var verst samt var að ég var svo hrædd um að rekast á mann sem tengdist fjölskyldunni minni og var alltaf að reyna koma vilja sínum fram við mig. Ég var rosalega hrædd við hann og sá stundum bílinn hans þegar ég var að labba og þá hljóp ég."

Átti sér engan málsvara

Hafdís segir skólagöngu sína hafa gefið sér það veganesti út í lífið að hún gæti ekki lært. „Mér leið mjög illa, bæði í skóla og heima við. Þegar ég var tólf ára fór ég einn vetur í Miðbæjarskólann og þar leið mér fyrst vel. Þar voru krakkarnir góðir við mig og ég fékk mjög góðan kennara. Þar leið mér vel en fékk ekki að vera nema einn vetur þar sem ég þurfti strætómiða til að komast þangað og fóstri minn vildi ekki kaupa þá.“

Eftir það fór hún í Réttarholtsskóla og þar tók sama við, hún var sett í tossabekk. „Þar leið mér ekki vel og var bara fegin þegar ég kláraði skólaskylduna.“

Þá fór hún að vinna fyrir sér. Nokkrum árum síðar fór hún svo og lærði að vera sjúkraliði. „Ég var að vinna í umönnun á Landakoti og þar voru samstarfskonur mínar alltaf að hvetja mig til að fara og læra sjúkraliðinn. Ég var ekki viss um að ég gæti það en fór á endanum og þó að námið hefði allt verið á dönsku þá fékk ég toppeinkunnir. Ég gat alveg lært.“

Hafdís segist lítið hugsa um fortíðina en stundum leiði hún hugann að því af hverju enginn hafi staðið upp fyrir henni.  Augljóst var að henni var ekki sinnt heima fyrir og einkennilegt sé að skólayfirvöld hafi ekki skipt sér af eða Barnaverndarnefnd. "Ég átti engan málsvara."

Jón Ragnarsson
Eins og maður ætti ekki séns í samfélaginu

„Mín skólaganga var mjög sorgleg,“ segir Jón Ragnarsson, kallaður Nonni, sem var í Laugarnesskóla. „Við öll sem komum úr Höfðaborginni vorum sett í sama bekk bara af því við vorum þaðan.“

Jón segist ekki hafa átt erfitt með að læra en allur áhugi og metnaður hafi hins vegar verið drepinn niður í skólanum. Hann var ungur þegar faðir hans lést og móðir hans var ómenntuð þannig það var litla hjálp að fá heima fyrir.

„Mér finnst skrítið hvernig skólakerfið gat leyft sér að hafna manni alveg. Ég átti erfitt með lestur en var góður í reikning. Ég vissi það seinna að ég gat alveg lært, þetta snerist ekki um það.”

Jón segir fullorðna fólkið hafa verið verra en börnin. Börnin sem voru í tossabekkjum hafi verið undir og miklir fordómar verið fyrir þeim.

„Ég hef oft hugsað seinna hvað fullorðna fólkið var grimmt. Bæði kennarar og foreldrar. Ef það gerðist til dæmis að manni var boðið heim til einhvers sem var ekki úr Höfðaborginni þá gerðist það bara einu sinni. Foreldrarnir föttuðu að maður bjó þar, hlyti því að vera lúsugur og var ekki boðið aftur.“

Jón fór svo að eigin ósk á Jaðar sem var heimavistarskóli. Bróðir hans hafði verið þar nokkrum árum fyrr og sagt honum að hann væri að teikna og ýmislegt sem Nonna fannst spennandi. Á Jaðri naut hann sín og gekk vel í skólanum. Þegar hann var tólf ára gamall fór hann í Austurbæjarskóla og svo Miðbæjarskólann. Hann segir að eftir að hann kom frá Jaðri hafi hann mætti meiri fordómum en áður.

„Þá var ég enn verr settur heldur en að koma bara úr Höfðaborginni. Við þessir krakkar áttum engar varnir. Það var alltaf talað niður okkar og gert lítið úr okkur. Við sem komum úr Höfðaborginni stóðum samt saman og maður sá þetta ekki eins þá og maður gerði eftir á. Það var samfélagið sem var með stæla við okkur og við vorum stimpluð.“

Skólaganga Jóns var stutt. „Ég hætti eftir að hafa reynt við 1. bekk tvisvar. Það var einhvern veginn eins og maður ætti ekki séns í samfélaginu. Mér finnst eins og þessi skipting hafi gengið út á það stundum að búa til undirmálsfólk, sumir komust aldrei út úr þessu.“

Björg Guðrún Gísladóttir.
Dreymdi um að komast í annan bekk

„Þetta hafði mikil áhrif á mína sjálfsmynd, ég var mjög meðvituð um að ég væri í tossabekk og fannst það ósanngjarnt, mig dreymdi um að komast í betri bekk.“ segir Björg Guðrún Gísladóttir sem var í tossabekk í Laugarnesskóla frá 7-12 ára. „Við vorum lögð í einelti í frímínútum af krökkunum í hinum bekkjunum sem kölluðu okkur „tossana,.“

Björg sagði frá þessari upplifun sinni í bókinni Hljóðin í nóttinni. Þar lýsti hún harðri lífsbaráttu fjölskyldu sinnar sem bjó í Höfðaborg og síðar á Skúlagötu.

Þegar hún byrjaði í skóla var hún sett beint í tossabekk og hélst þar þrátt fyrir að hún væri góður námsmaður. „Ég og annar strákur vorum alltaf hæst á prófum til skiptis. Ég fékk bókaverðlaun þegar ég útskrifaðist úr tólf ára bekk, var hæst í bekknum sem sýndi að ég gat lært“ segir Björg sem óskaði sér alltaf að komast í annan bekk og lagði hart að sér í náminu til þess að reyna það. „Mér fannst verst þessi skömm sem fylgdi því að vera í tossabekk. Þetta var ákveðinn stimpill um að ég gæti ekki lært en það var ekki þannig.“

Litið var niður á börnin í tossabekknum, þau uppnefnd og þeim strítt. Jafnvel króuð af þar sem kennarar sáu ekki til og barin. Björg lýsir líka í bókinni kynferðisofbeldi sem kennari þeirra, Skeggi Ásbjarnarson, beitti skólabræður hennar. Eftir útgáfu bókarinnar stigu nokkrir fram og lýstu ofbeldi hans.

„Hann sýndi okkur óspart hver hefði völdin og notaði til þess kennaraprikið þegar hann sló í borðið hjá þeim sem höguðu sér illa. Hann talaði niður til okkar og hótaði strákunum að þeir yrðu sendir á Jaðar eða Breiðuvík ef þeir hegðuðu sér illa,” segir hún.

“Að vera í tossabekk gerði það að verkum að við fengum lítið sem ekkert að taka þátt í skólaskemmtunum sem Skeggi sá um. Þetta var bara ákveðinn stimpill. Við vorum ekki eins og hin og áttum enga möguleika í að breyta því viðhorfi.“

Hulda Fríða Berndsen
Engin bekkjarmynd tekin af tossabekknum

„Þetta hefur alla tíð hvílt mjög þungt á mér og ég trúði því lengi að ég væri bara illa gefin. Það fylgdi því mikil skömm að vera í tossabekk og þessi skömm hefur alltaf verið föst í mér,“ segir Hulda Fríða Berndsen, sem er fædd árið 1951 og var á sinni skólagöngu í tossabekkjum, fyrst í Breiðagerðisskóla og svo Réttarholtsskóla.

„Þetta var rosalega stór árgangur. Við sem vorum í tossabekkjunum fengum ekki að vera með hinum. Við vorum höfð sér í Víkingsheimilinu og fengum heldur eiginlega ekki að vera með í félagslífinu. Það voru bara góðu bekkirnir sem fengu að vera með. Við vorum alveg útundan. Við vorum svona þriðja flokks.“

Mikil stéttaskipting

Hulda segir það alls ekki hafa verið þannig að þeir krakkar sem voru í tossabekkjum hafi verið illa gefin. Þau hafi átt við ýmsa námserfiðleika að stríða og algengara var að börn þeirra efnaminni lentu í þessum bekkjum. Sjálf bjó hún við erfiðar aðstæður heima fyrir og fátækt. Hún segir ekki hægt að kenna hinum börnunum um útskúfunina heldur hafi það verið skólakerfið sjálft sem setti þau til hliðar „Oft bjuggu þessi börn á óregluheimilum. Mörg voru vannærð andlega og líkamlega. Þetta skiptist eiginlega bara við Bústaðaveginn. Þau sem bjuggu í fínu húsunum fóru sjálfkrafa í góðu bekkina.“

Hulda átti erfitt með að læra lesa og fékk það seinna staðfest að hún væri lesblind. „Þarna var hins vegar bara ákveðið að ég gæti ekki lært og ég trúði því.“

Hulda fór á endurfundi hjá árgangnum fyrir nokkrum árum síðan og þá rifjaðist skömmin úr skóla upp. „Þegar ég kom þarna þá var spurt í hvaða bekk maður hefði verið, þau voru með bekkjarlistana. Ég sagði I-bekk og þá kom í ljós að hann var ekki á listanum. Þá kom upp öll skömmin en ég fór samt inn og sagði henni að merkja bara við H-bekkinn.“ Hulda segir þetta hafa fengið töluvert á sig. „Síðan áttu allir að standa upp, kynna sig og segja í hvaða bekk þeir væru. Þá fór ég bara út á meðan, ég gat ekki verið þarna inni, ég skammaðist mín svo.“

Hulda hefur hugsað mikið um þetta og ákvað að fara í gamla skólann sinn á dögunum og athuga hvort það væri til bekkjarmynd af bekknum. „Það var engin mynd til af okkur. Konurnar sem voru að vinna þarna voru mjög vingjarnlegar og sögðu mér að það hefði komið maður þarna í svipuðum erindagjörðum en það hefði ekki verið til mynd af honum heldur. Það er bara eins og við höfum ekki verið til, það var ekki einu sinni tekin bekkjarmynd af okkur,“ segir hún. „Þessir krakkar hurfu líka bara, ég man ekki eftir að hafa hitt neinn sem var með mér í bekk, það er bara eins og jörðin hafi gleypt þessa krakka. Það var svo mikil skömm sem fylgdi þessu að vera í þessum bekkjum. Flestir fóru bara beint að vinna eftir skylduna.“

Árgangur Huldu í Réttarholtsskóla er með hóp á Facebook og nokkrum mánuðum eftir endurfundina ákvað hún að skrifa færslu þar inn. Hún er sú eina úr sínum bekk sem er í þessum hóp. „Ég skrifaði um þetta og hvað mér fyndist ósanngjarnt hvernig þessi stéttaskipting hefði verið. Þetta truflaði mig svo rosalega. Þau voru sammála mér. Börnin tóku kannski þátt í því en það var vegna þess að kerfið var svona. Það var skólakerfið sem mismunaði. Ég fékk þvílík viðbrögð og fólk skildi þetta ekki.“

 
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.