Viðskipti innlent

Fasteignaverð ekki hækkað meira frá árinu 2007

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað mikið og spáir Landsbankinn því að það muni hækka meira.
Fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað mikið og spáir Landsbankinn því að það muni hækka meira. vísir/vilhelm
Fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 9,4 prósent á milli áranna 2014 og 2015 en þetta eru mestu verðhækkanir frá árinu 2007.

Frá þessu er greint í Hagsjá Landsbankans en þar kemur einnig fram að fjölbýli hækkaði um 10 prósent frá fyrra ári og sérbýli um 7,6 prósent. Þessi mikla hækkun á fasteignaverði á höfuðborgarsvæðinu er þó ekki einsdæmi þar sem hækkunin var í sumum bæjarfélögum meiri eða álíka mikil.

Þannig hækkaði fasteignaverð á Akureyri til að mynda um 11,3 prósent á milli ára og í Vestmannaeyjum og Fjarðabyggð var hækkunin svipuð og á höfuðborgarsvæðinu; í Vestmannaeyjum nam hún 8,8 prósentum og í Fjarðabyggð 7,7 prósentum.

Árborg og Reykjanesbær skera sig síðan nokkuð úr að því er segir í Hagsjánni þar sem fasteignaverð lækkaði um 0,6 prósent í Árborg og hækkaði aðeins um 2,6 prósent í Reykjanesbæ.

Hagfræðideild Landsbankans spáir áfamhaldandi hækkun fasteignaverðs á næstu árum. Í Hagsjánni segir að megindrifkrafturin í hækkun fasteignaverðs liggi að jafnaði í hefðbundnum áhrifaþáttum eins og þróun kaupmáttar, tekjum og atvinnustigi.

„Allir þessir þættir stefna nú í þá átt að ýta undir hækkun fasteignaverðs. Þessu til viðbótar er nokkuð ljóst að verulega vantar á að framboð íbúða anni eftirspurn og greinilega er þörf á nýjum inn á markaðinn til þess að hægt sé að anna eftirspurn.“


Tengdar fréttir

Velta á fasteignamarkaði aukist um helming

Velta á fasteignamarkaði á höfuðborgarsvæðinu hefur aukist um nærri helming á síðustu þremur árum. Rúmlega sjö þúsund samningum hefur verið þinglýst í ár, þúsund fleiri en allt árið í fyrra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×