Viðskipti innlent

Forstjóri Kauphallarinnar vill bankana að fullu úr ríkiseigu

Ingvar Haraldsson skrifar
Páll Harðarson telur það ekki líklegt til árangurs að ríkið eigi banka.
Páll Harðarson telur það ekki líklegt til árangurs að ríkið eigi banka. fréttablaðið/gva
Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, vill að bankarnir verði að fullu einkavæddir. Hann vill ekki að ríkið eigi neinn hlut í bönkunum. Þetta sagði hann á fundi félags viðskiptafræðinga og hagfræðinga um einkavæðingu bankanna, sem fór fram í gær.

„Aðkoma ríkisins að rekstri eins banka hefur verið rökstudd á grunni samfélagslegs ávinnings, einkum til að tryggja samkeppni á bankamarkaði. En reynslan af ríkisrekstri banka gefur ekki tilefni til bjartsýni að þessu leyti. Þótt meiningin geti verið góð býður þetta fyrirkomulag hættunni á pólitískri spillingu heim þegar til lengdar lætur,“ segir Páll.

Páll telur ótrúverðuga stefnu að ríkið sé í stórum hluta bankakerfisins og efast um að það tryggi góða starfshætti.

„Ekkert Evrópuríki hefur markað þessa stefnu. Öll ríki Evrópu sem fengu banka í fangið í kjölfarið á fjármálakreppunni eru byrjuð að selja eignarhluti sína.“

Þá hafi bankar og starfsumhverfi þeirra gerbreyst á undanförnum árum. „Hertar reglur í kringum bankastarfsemi sem mótaðar hafa verið á alþjóðavettvangi miða að því að draga úr áhættusækni og tryggja heilbrigða og trausta bankastarfsemi. Ég tel því skynsamlegt að losa um ríkiseign í hóflegum skrefum með það að markmiði að ríkið verði í mesta lagi minnihlutaeigandi í einum banka.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×