Skoðun

Var íslenskt samfélag viðbjóðslegt?

Skúli Ólafsson skrifar
Fimmtudaginn 10. mars fullyrti Frosti Logason í bakþönkum Fréttablaðsins á þessa leið: „Það er nefnilega þannig að því meira sem við vitum um eitthvað því betur kunnum við að meta það. Þetta á við um allt nema trúarbrögð.“

Hér fylgja fáeinar staðreyndir um áhrif þeirra trúarbragða sem nærtækast er að nefna, nánar til tekið kristna trú.

Veraldleg samtök á borð við Amnesty International og Greenpeace eiga rætur að rekja til kristins safnaðarstarfs. Mörg önnur félög má tengja við kristna manngildishugsjón og má þar nefna skátana, Save the Children (Barnaheill) og Rauða krossinn. Nokkur af fyrstu sjúkrahúsum hér á landi voru reist og starfrækt af rómversk-kaþólsku kirkjunni. Háskólar vestanhafs á borð við Harvard, Yale og Princeton voru upphaflega biblíuskólar reknir af kristnum trúarsöfnuðum. Elstu háskólar Evrópu urðu til á miðöldum og voru kristin klaustur. Flestir vita að klaustrin á Íslandi stóðu fyrir ritun og útgáfu á fjölbreyttum ritum. Það framlag til heimsmenningarinnar verður seint ofmetið. Þá blómstruðu listir og vísindi í hinni kristnu Evrópu frá og með endurreisnartímanum.

Þetta eru fáein dæmi um baráttu trúarhópa fyrir betra samfélagi. Ótalin eru hin fjölmörgu hjálparsamtök sem starfa undir merkjum ýmissa kirkna.

Færum okkur framar í tímann. Frosti heldur þessu fram: „[Fyrir tuttugu árum] var íslenskt samfélag viðbjóðslegt.“ Þessu er ég ósammála. Það hafði, rétt eins og samtími okkar, bæði kosti og galla. Í sumum efnum hefur aukin þekking dregið úr fordómum en óþol gagnvart trúuðu fólki færist í vöxt svo jaðrar við ofsóknir.

Vanda okkar má þó í flestum tilvikum rekja til annarra þátta. Nægir að nefna þá staðreynd að vistkerfi jarðar stendur höllum fæti og sífellt gengur á óspillta náttúru. Ekkert lát er þar á og virðist litlu skeytt um hugsjónir, þessa heims eða annars. Ef eitthvað verðskuldar að kallast „viðbjóðslegt“ þá er það meðferðin á þessum heimkynnum okkar. Þar er ekki við trúarbrögðin að sakast nema ef væri fyrir þá blindu framfaratrú sem á okkar dögum virðist hafin yfir alla gagnrýni.




Skoðun

Sjá meira


×