Viðskipti innlent

Þjónustujöfnuður við útlönd jákvæður um 190,7 milljarða

Sæunn Gísladóttir skrifar
Ferðalög voru stærsti þjónustuliður í innflutningi og nam afgangur af þeirri þjónustu 583 milljónum.
Ferðalög voru stærsti þjónustuliður í innflutningi og nam afgangur af þeirri þjónustu 583 milljónum. Vísir/Vilhelm
Samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar fyrir árið 2015 var útflutningur á þjónustu 562,5 milljarðar en innflutningur á þjónustu 371,8 milljarðar. Þjónustujöfnuður við útlönd var því jákvæður um 190,7 milljarða en var jákvæður um 134,6 milljarða á árinu 2014 á gengi hvors árs.

Þar af skiluðu samgöngur 141,2 milljarða króna afgangi og ferðaþjónusta skilaði 77 milljarða afgangi. Á móti nam halli á annarri viðskiptaþjónustu 60 milljörðum.

Heildarútflutningur á þjónustu á fjórða ársfjórðungi 2015 var, samkvæmt bráðabirgðatölum, 120,7 milljarðar króna en innflutningur á þjónustu 99,4  milljarðar. Þjónustujöfnuður við útlönd var því jákvæður um 21,2 milljarða króna en var jákvæður um 11 milljarða á sama tíma árið 2014 á gengi hvors árs. Á fjórða ársfjórðungi voru samgöngur stærsti þjónustuliður í útflutningi og nam afgangur þeirra 25,9 milljörðum. Ferðalög voru stærsti þjónustuliður í innflutningi og nam afgangur af þeirri þjónustu 583 milljónum. Halli á annarri viðskiptaþjónustu nam 13,4 milljörðum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×