Kevin Durant fékk í gær grænt ljós á að taka fullan þátt í æfingum Oklahoma City Thunder sem hefjast í næstu viku en rúmur mánuður er í að nýtt NBA-tímabil hefjist.
Durant sem er einn af bestu körfuknattleiksmönnum heimsins gat aðeins tekið þátt í 27 leikjum á síðasta tímabili vegna meiðsla en í þessum 27 leikjum var hann með 25,4 stig að meðaltali í leik ásamt því að taka niður 6,6 frákast og gefa 4,1 stoðsendingu.
Í fjarveru hans missti Oklahoma City Thunder af sæti í úrslitakeppninni í fyrsta sinn í langan tíma þrátt fyrir að Russell Westbrook hafi farið hamförum með liðinu. Reyndist fjarvera Durant liðinu of mikið en enginn annar leikmaður en Westbrook virtist stíga upp í fjarveru hans.
Durant var valinn verðmætasti leikmaðurinn í deildinni (e. most valuable player) tímabilið 2013-2014 en hann hefur sex sinnum verið valinn í stjörnuliðið, fimm sinnum í úrvalslið deildarinnar og fjórum sinnum orðið stigahæsti leikmaður deildarinnar.
Greindi framkvæmdarstjóri Oklahoma City Thunder frá því að hann gæti tekið fullan þátt í æfingum liðsins með snertingu og að hann hefði náð sér að fullu eftir aðgerðirnar sem hann fór í.

