Viðskipti innlent

Hafa ekkert heyrt af tómatagróðurhúsinu

Haraldur Guðmundsson skrifar
Bæjaryfirvöld í Grindavík gerðu ekki ráð fyrir tekjum af verkefninu í fjárhagsáætlun ársins 2015.
Bæjaryfirvöld í Grindavík gerðu ekki ráð fyrir tekjum af verkefninu í fjárhagsáætlun ársins 2015. Mynd/Oddgeir Karlsson
Bæjaryfirvöld í Grindavík hafa í tæpa fjóra mánuði ekki heyrt í forsvarsmönnum hollenska fyrirtækisins EsBro, sem áformar að reisa 150 þúsund fermetra tómatagróðurhús í um tíu kílómetra fjarlægð frá bænum.

„Það hefur ekkert frést af þessu þannig að við erum ekki að gera ráð fyrir þessu í okkar plönum. En ef það kemur einhver sem vill gera þetta þá er allt tilbúið,“ segir Róbert Ragnarsson, bæjarstjóri í Grindavík.

EsBro hefur áform um gróðurhús undir framleiðslu á tómötum til útflutnings en verkefnið var fyrst kynnt á íbúafundi í Grindavík í október 2013.

Kristján Eysteinsson, starfsmaður EsBro og umsjónarmaður verkefnisins hér á landi, segir ekki búið að blása verkefnið af.

„Staðan er óbreytt frá því í sumar en það hefur reynst erfitt að fjármagna verkefnið. Þar spilar ýmislegt inn í og þar á meðal gjaldeyrishöftin og að fjárfestar hafa ekki verið neitt sérlega æstir í að fara til Íslands með peninga.“

Upphaflegar áætlanir EsBro gerðu ráð fyrir að framkvæmdir myndu hefjast á síðasta ári. Kristján gerir ráð fyrir að það skýrist á næstu vikum hvort af framkvæmdum verður.

„Ég hef sagt það áður að það verður að fara að skýrast hvort af þessu verður eða ekki því orkusamningar og drög að þeim hafa ekkert eilíft gildi,“ segir Kristján.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×