Viðskipti innlent

Ásókn í verðtryggt vegna kjaradeilna

ingvar haraldsson skrifar
Meiri sókn í verðtryggð skuldabréf gæti valdið því að vextir verðtryggðra lána lækki.
Meiri sókn í verðtryggð skuldabréf gæti valdið því að vextir verðtryggðra lána lækki. fréttablaðið/stefán
Verðbréfa- og lífeyrissjóðir sækja nú í auknum mæli í verðtryggð skuldabréf á kostnað óverðtryggðra vegna stöðunnar sem uppi er á vinnumarkaði. Þetta segir Hrafn Steinarsson, sérfræðingur hjá Greiningardeild Arion banka.

Hrafn segir fjárfesta hafa væntingar um að verðbólga aukist frekar á næstunni enda hafi fulltrúar launþega farið fram á tuga prósenta launahækkanir í kjölfar kjarasamninga sem kennarar og læknar hafa þegar gert.

„Það hefur verið breitt bil milli samningsaðila og nú þegar harkan eykst þá eykst bölsýni markaðsaðila,“ segir hann.

Framboðið á verðtryggðum skuldabréfum er hins vegar lítið og allt útlit fyrir að umframeftirspurn verði eftir verðtryggðum skuldabréfum á árinu að sögn Hrafns.

Hrafn Steinarsson
Þetta hefur valdið því að ávöxtunarkrafa á verðtryggð skuldabréf hefur lækkað verulega. „Frá áramótum hefur verðbólguálagið rokið upp vegna kjarasamninga,“ segir Hrafn.

Fimm ára verðbólguálag, sem segir til um væntingar fjárfesta um meðaltalsverðbólgu næstu fimm árin, hefur frá áramótum hækkað úr 2,5 prósentum í 4,2 prósent. Fjárfestar búast því við að verðbólga verði yfir verðbólgumarkmiði Seðlabanka Íslands sem kveður á um að verðbólga skuli vera milli eins og fjögurra prósenta.

Hrafn telur að til lengri tíma gæti meiri ásókn í verðtryggð skuldabréf umfram óverðtryggð valdið því að vextir á verðtryggðum lánum lækki en vextir á óverðtryggðum lánum hækki.

Það gæti þó breyst ef launahækkanir í kjarasamningum verða óverulegar og verðbólga haldist áfram lág. „En eins og staðan er núna eru engar vísbendingar um að það muni gerast,“ segir Hrafn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×