Viðskipti innlent

Varar við höfrungahlaupi í komandi kjaraviðræðum

jón hákon halldórsson skrifar
Forsætisráðherra vill að hagsmunir heildarinnar séu hafðir að leiðarljósi í kjaraviðræðum.
Forsætisráðherra vill að hagsmunir heildarinnar séu hafðir að leiðarljósi í kjaraviðræðum. Fréttablaðið/GVA
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra hvetur fulltrúa atvinnulífsins til þess að taka ekki þátt í „höfrungahlaupi“ í komandi kjaraviðræðum. Þeir ættu fremur að hugsa um hagsmuni heildarinnar. Þetta kom fram í máli forsætisráðherra á Viðskiptaþingi á Hilton Nordica hóteli í gær.

„Forsætisráðherra á ekki að semja um kaup og kjör. En hann getur haft skoðanir á kjarasamningum, líkt og aðilar vinnumarkaðarins hika ekki við að hafa skoðanir á stjórnvaldsaðgerðum,“ sagði Sigmundur Davíð. Hann sagðist um nokkurt skeið hafa talað fyrir því að menn litu í auknum mæli til krónutöluhækkana.

„Ég geri mér grein fyrir að krónutöluhækkanir hafa haft tilhneigingu til að rata upp allan launastigann í formi prósenta. Það er þó ekkert náttúrulögmál. Ef litið er til síðustu átta ára þá hafa krónutöluhækkanir leitt til þess að lægstu launin hafa hækkað hlutfallslega meira en meðallaunin. Það er mikilvægt að halda áfram á þeirri braut og gera enn betur,“ segir Sigmundur Davíð.

Forsætisráðherra segir að það þurfi líka að draga úr neikvæðum hvötum og jaðaráhrifum sem búa til fátæktargildrur. „Þegar jaðaráhrif skatta og bóta valda því að fólk lendir í þeirri stöðu að auka ráðstöfunartekjur sínar sáralítið þótt kaupið hækki þá dregur það mjög úr hvata vinnuveitandans til að hækka laun starfsmannsins og hvata starfsmannsins til að vinna meira eða auka framleiðni,“ sagði Sigmundur Davíð. Hann sagði að á þessu væri einungis hægt að taka í samvinnu ríkisvaldsins, launþegahreyfinga og vinnuveitenda.

HreggviðurJónsson
Hreggviður Jónsson, formaður Viðskiptaráðs Íslands, hvatti til aðhalds í opinberum rekstri. En hann hvatti fólk líka til þess að vera meðvitað um sambandið milli ríkistekna og ríkisútgjalda. Benti hann á að í nýrri skoðanakönnun sem Viðskiptaráð lét gera hafi niðurstöður orðið að tveir þriðju landsmanna telja skattbyrði sína of háa. Um þriðjungur taldi hana hæfilega en aðeins einn af átta hundruð aðspurðum taldi hana alltof lága.

„Í sömu könnun taldi hins vegar aðeins þriðjungur aðspurðra umfang hins opinbera vera of mikið. Ef tekið er mið af almennri umræðu, finnst mörgum síðan þó nokkuð vanta upp á gæði hinnar opinberu þjónustu,“ sagði Hreggviður. Þetta væri áskorunin í hnotskurn. „Fólk vill fá mikið fyrir lítið og tengir ekki nógu vel saman tekju- og útgjaldahlið hins opinbera. Því miður er enginn hádegisverður ókeypis,“ sagði Hreggviður.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×