Innlent

Prufukeyra kerfi rafrænna kosninga

Kolbeinn Óttarsson Proppé skrifar
Rafrænar íbúakosningar verða í Ölfusi í mars. Reynslan af þeim, og öðrum eins sem haldnar verða, ráða því hvort kerfi spænska fyrirtækisins Scytl verður tekið upp.
Rafrænar íbúakosningar verða í Ölfusi í mars. Reynslan af þeim, og öðrum eins sem haldnar verða, ráða því hvort kerfi spænska fyrirtækisins Scytl verður tekið upp. fréttablaðið/stefán
Fyrsta prufa nýs kerfis fyrir rafrænar íbúakosningar fer fram í sveitarfélaginu Ölfusi 17. til 26. mars. Þar fá Ölfusingar færi á að segja hug sinn til þess hvort leita eigi eftir sameiningu við önnur sveitarfélög.

Þjóðskrá samdi 2013 við spænska fyrirtækið Scytl um hönnun kerfis fyrir rafrænar íbúakosningar. Samkvæmt samningnum skyldu haldnar tvær prufukosningar á árinu 2014, en þær hafa ekki enn farið fram. Kosningin í Ölfusi verður því fyrsta prufukeyrslan á kerfinu, sem taka á upp fyrir allar rafrænar kosningar á landinu.

Bragi L. Hauksson
Bragi L. Hauksson, verkefnastjóri hjá Ísland.is, segir að einungis verði um rafrænar kosningar að ræða og fólk geti kosið heima hjá sér. Þó verði líklega komið upp tölvu í almannarými, líklega á bókasafninu, sem kjósendur geta nýtt sér. Kosningarnar verði öruggar.

„Eitt sem kemur alltaf upp í umræðunni þegar farið er að ræða um rafrænar kosningar er að þær séu ómögulegar af því að aðrir fjölskyldumeðlimir geti haft óeðlileg áhrif á hvað kosið sé. Við þessu hefur verið séð á þann hátt að menn geta kosið eins oft og þeir vilja, það er bara síðasta atkvæðið sem gildir, ekki ósvipað því sem verið hefur í utankjörfundaratkvæðagreiðslu. Ef einhver dómínerandi á heimilinu hefur staðið yfir viðkomandi á meðan kosið var er hægt að laumast til Siggu frænku og fá að kjósa aftur og ógilda þannig fyrra atkvæði.“

Sveitarfélögum landsins stóð til boða að taka þátt í tilraunaverkefninu og varð Ölfus fyrir valinu. Óvíst er hvar seinni kosningarnar fara fram, en eftir þær verður tekin ákvörðun til framtíðar um hvort notast verður við þetta kerfi.

Til þess að taka þátt þarf fólk að nota Íslykil eða rafræn skilríki.

Fengu 56 milljónir

Á þriggja ára tímabili á árunum 2013-2015 hefur Þjóðskrá fengið 56 milljónir króna í fjárveitingu vegna verkefnisins.

„Inni í þeirri tölu er meðal annars undirbúningur með aðstoð ráðgjafa, samskipti við sveitarfélög, aðkoma að reglugerðarsmíði, vinna við val á kerfi, innkaup á kerfinu frá Scytl (innan útboðsmarka), vinna vegna rafrænnar kjörskrár, skilgreiningar á ferlum, þróun innskráningarþjónustu Ísland.is og tenging hennar við kosningakerfi,“ segir í svari Þjóðskrár við fyrirspurn Fréttblaðsins.

Þá hafi fallið til talsverður kostnaður vegna kaupa og uppsetningar á flóknu og öruggu tækniumhverfi vegna kosninganna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×