Viðskipti innlent

Orð eru til alls fyrst

Skjóðan skrifar
Ástæða er til að fagna því að forsætisráðherra skuli hafa tekið forystu um að byggja nýjan spítala.
Ástæða er til að fagna því að forsætisráðherra skuli hafa tekið forystu um að byggja nýjan spítala. vísir/vilhelm
Eftir nokkurn barning náðust loks samningar um kaup og kjör lækna. Þó að innihald þeirra sé ekki orðið opinbert er ljóst af kröfum lækna að launahækkunin er mjög mikil og líklega umfram það sem eðlilegt getur talist eða nauðsynlegt.

Ein ástæða þess að læknar fengu sitt fram er sú að þeir höfðu yfirhöndina í samningaviðræðunum við ríkið. Án vel menntaðra lækna verður ekki rekið heilbrigðiskerfi. Læknar höfðu fólkið í landinu einnig í liði með sér. Almenningur lítur á það sem hluta af kjörum og velferð að hafa aðgang að góðu og vel mönnuðu heilbrigðiskerfi. Þó má búast við að læknasamningarnir dragi dilk á eftir sér þegar kemur að því að semja við aðrar heilbrigðisstéttir sem og á almennum vinnumarkaði.

Ástæða er til að fagna því að forsætisráðherra skuli hafa tekið forystu um að byggja nýjan spítala. Að sönnu er ekki samstaða um framkvæmdina, umfang hennar eða staðsetningu nýs spítala. Eftir er að fjármagna byggingu og tæki og marka stefnu til framtíðar í heilbrigðismálum. Slík stefna verður að innihalda raunhæfar áætlanir um fjármögnun, rekstur og viðhald tækja og mannafla.

Varlega áætlað kostar bygging nýs spítala 100 milljarða. Ýmsar leiðir standa til boða við fjármögnun og rekstur hans. Ríkið getur selt hluta ef eign sinni í Landsbankanum og aflað þannig 40-50 milljarða. Alþingi getur ákveðið að hluti tryggingargjalds renni til reksturs spítalans. Alþingi getur líka ákveðið að afla fjár til byggingar eða reksturs spítalans með því að leggja á sérstakt viðbótarauðlindagjald. Þá er hægt að láta lífeyrissjóði landsins fjármagna t.d. 40 milljarða með láni á eins prósents vöxtum.

Allir Íslendingar hafa hag af því að byggður verði nýr spítali sem jafnast á við það sem best gerist annars staðar í heiminum. Launakjör eru ekki hið eina sem ræður ákvörðun lækna um starfsstað. Tæknivæddur og vel hýstur spítali heldur í gott fólk og bætir aðbúnað sjúklinga. Okkur hinum, sem ekki störfum við heilbrigðiskerfið, líður betur að vita af öruggu heilbrigðiskerfi og traustum spítala. Án efa mun nýr spítali efla bjartsýni landans.

Vitanlega er einn, nýr spítali í Reykjavík ekki nóg til að reisa heilbrigðiskerfið við. Það er mikilvægt fyrir byggð í landinu og ferðaþjónustu að hringinn í kringum landið verði ofið sterkt net öflugra heilbrigðisstofnana. Það verður að vera hluti af framtíðarstefnumótun í heilbrigðismálum.

En orð eru til alls fyrst.



Skjóðan skrifar í Markaðinn í Fréttablaðinu á miðvikudögum. Hún er frekju- og leiðindaskjóða, sem lætur ekkert mannlegt sér óviðkomandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×