„Á hvaða öld lifum við? Iðnaðarráðherra gerir 700 milljón króna „ívilnunarsamning“ við fyrirtæki í sínu kjördæmi sem er í eigu náins frænda fjármálaráðherra,“ segir Jón Steinsson, dósent í hagfræði við Colombia háskólann í Bandaríkjunum í færslu á Facebook.
Færslan er rituð við frétt sem birtist á Vísi fyrr í dag um ívilnunarsamning ríkisins við Matorku sem er að stórum hluta í eigu Benedikts Einarssonar, frænda Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra.
Sjá einnig: Ívilnun iðnaðarráðherra við Matorku gagnrýnd
Jón bætir við að þetta sé ekki í fyrsta sinn sem frændur fjármálaráherra virðist fá sérstaklega góða meðhöndlun hjá ríkinu. „Landsbankinn seldi um daginn öðrum frænda fjármálaráðherra stóran hlut í Borgun í gegnum lokað ferli. Ég ætla að ganga svo langt að kalla þetta spillingu,“ segir Jón.
Íslendingar brennt sig á að treysta stjórnarflokkunum
Hann segir að Íslendingar hafi of oft farið illa út úr því að treysta Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum. „Að mínu mati er sönnunarbyrðin á stjórnvöldum að sýna að allir hafi setið við sama borð. Stjórnvöld njóta ekki vafans í mínum huga eftir allt sem á undan er gengið. Við höfum brennt okkur allt of oft á því að leyfa þeim sem stjórna Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum að njóta vafans í svona málum,“ segir hann.
„Það traust hefur bara leitt til þess að eigur ríkisins og þjóðareigur hafa verið seldar á útsölu til útvalinna aðila og þjóðin situr eftir með sárt ennið“ segir Jón og bætir við að þetta þurfi ekki að vera svona. „En til þess að þetta stoppi þurfa kjósendur að endurskoða afstöðu sína til svona mála,“ segir Jón.
Í fyrri útgáfu af fréttinni var ranghermt að Benedikt væri Sveinsson en ekki Einarsson.
