Fastir pennar

Ofbeldi eða samræður?

Jón Gnarr skrifar
Ég hef lengi verið talsmaður þess að Reykjavík og helst Ísland allt, taki meira frumkvæði þegar kemur að hinum svokölluðu friðarmálum. Það var mér því mikill heiður og ánægja að vera boðin formennska í ráðgjafanefnd um nýstofnað Friðarsetur í Reykjavík. Og þar sem ég veit að margir hafa gaman af að velta slíku fyrir sér, er ekki úr vegi að taka það fram að ég geri þetta í sjálfboðastarfi og fæ ekkert greitt fyrir.

Ég er einn þeirra sem trúi því staðfastlega að mannkynið verði sífellt betra og betra  og fleiri og fleiri átti sig á því að framtíð okkar og framfarir byggjast æ minna á samkeppni og baráttu heldur á aukinni samvinnu, samskiptum og félagsskap. Við höfum alltaf um þetta tvennt að velja; ofbeldi eða samræður. Ofbeldi kann, í fljótu bragði, að virðast einföld lausn. En reynslan sýnir að afleiðingarnar eru yfirleitt flóknar og hræðilegar.

Íslensk þjóðmenning ekki bara unnar kjötvörur og danskar pylsur

Ísland hefur sérstöðu meðal þjóða. Samfélag okkar byggist á ríkri friðar- og lýðræðishefð. Hér er enginn her. Við virðum mannréttindi. Alþjóðlegar rannsóknir sýna að hvergi í heiminum er betra að vera kona en á Íslandi. Okkur finnst sjálfsagt að gera hluti sem öðrum þykja óhugsandi. Við vorum fyrst Evrópuþjóða til að kjósa okkur konu sem forseta. Og við vorum svo sátt við það að við kusum hana aftur og aftur og hún er enn þann dag í dag sú kona sem lengst hefur setið í lýðræðislega kjörnu embætti í heiminum.  Lesbíur, hommar, tvíkynhneigðir, transgender- og annað hinsegin fólk býr hér við einhverja bestu réttarstöðu sem þekkist. Og svona mætti lengi telja. Íslenskt samfélag er gott samfélag. Það er ekki fullkomið en við höfum margt og mikið til að byggja á.

Friður og mannréttindi eru nátengd. Okkar langa friðarhefð er forsenda þeirra mannréttinda sem við búum við í dag og teljum sjálfsögð. Tilgangur Friðarseturs í Reykjavík er að reyna að skilja hvað nákvæmlega felst í “friði og mannréttindum” og reyna að virkja það ennþá betur. Íslensk þjóðmenning er ekki bara bundin við unnar kjötvörur og danskar pylsur, eins og margir stjórnmálamenn virðast halda. Ef það væri svo þá gæti hver sem er bara étið það í sig að vera Íslendingur. En það er ekki svo einfalt. Kjarni íslenskrar þjóðmenningar verður ekki skráður í svínakjöt. Kjarninn snýst um þau gildi sem við tileinkum okkur í daglegum samskiptum okkar við hvert annað. Hann snýst um vináttu, virðingu, traust og ekki síst auðmýkt. Hver er heimspeki þess að vera Íslendingur? Mig dreymdi það um daginn að maður kom til mín og sagði mér að mesta upphefð sem Íslendingi gæti hlotnast væri sú að fá að deyja í eldgosi. Er það allt og sumt?

Peningar í friði

Ísland hefur alla burði til að verða leiðandi í friðar- og mannréttindamálum á heimsvísu. Og án hroka, yfirlætis eða stjórnsemi. Og það mun auka enn frekar þau lífsgæði sem við búum við. Og við höfum margt að byggja á. Höfði er gott dæmi. Hann er ekki bara gamalt timburhús í Borgartúni heldur táknmynd, einsog Berlínarmúrinn, fyrir endalok einhvers heimskulegasta stríðs allra tíma; kalda stríðsins. Setjum Höfða í hásæti. Friðarsúlan í Viðey er annað dæmi, stórkostlegt listaverk á heimsmælikvarða. Tendrun friðarsúlunnar vekur alltaf meiri og meiri athygli og gestum fjölgar. Gerum hana að árlegum heimsviðburði. Og fyrir þá sem deila ekki húmanískum hippahugsjónum mínum vil ég benda á að það eru sóknarfæri í friði. Peningar og tækifæri. Gerum Reykjavík að miðstöð leiðtogafunda og friðarráðstefna. Eflum skilning og meðvitund um frið og mannréttindi okkur sjálfum og öðrum til heilla.

Ímyndum okkur að þegar fólk framtíðarinnar heyrir John Lennon syngja Imagine þá hugsi það um frið og mannkærleika og verði ósjálfrátt hugsað til Íslands. Erum við ekki alveg að tengja?


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.