Capacent telur að innistæða sé fyrir 11,7 prósenta hækkun á gengi bréfa í Reitum, 18,9 prósenta hækkun á gengi bréfa í Eik, og 23,8 prósenta hækkun á gengi bréfa í Regin.
Snorri Jakobsson, sérfræðingur hjá Capacent, telur að kaup Regins á Fastengi hafi verið mjög arðbær fjárfesting. Sú fjárfesting hefði átt að endurspeglast í genginu en virðist samt ekki hafa gert það. Hann telur að Reginn sé vanmetið félag, en upplýsingagjöf félagsins mætti vera betri. Í skráningarlýsingu Eikar hafi til að mynda birst mjög nákvæmar upplýsingar um eignirnar. „Þar segja þeir nákvæmlega hver fjöldi leigutaka er, á hvaða svæði og hvers konar húsnæði það er,“ segir Snorri.

Þann 20. desember 2013 var tilkynnt um kaup fasteignafélagsins Eikar á fasteignafélaginu Landfestum og samþykkti Samkeppniseftirlitið kaupin á árinu 2014. Eik var svo skráð á markað í apríl síðastliðnum. Að mati Capacent leið of skammur tími milli kaupanna á Landfestum og skráningar félagsins. „Það er almennt ráðlagt, áður en fyrirtæki fara á markað, að það sé stöðugleiki í rekstri og ekki miklar breytingar svo það sé auðveldara að gera sér grein fyrir framtíðarrekstrinum,“ segir Snorri. Hann bendir á að rekstrarárið 2014 endurspegli engan veginn rekstrarárið 2015. „Hvernig áttu að verðmeta fyrirtækið þegar þú gerir þér enga grein fyrir framtíðarrekstrinum?“ spyr Snorri og bætir því við að ekki sé mælt með því að menn fari í útboð svo snemma eftir að keyptar eru stórar eignir. „Ekki nema að vera með þeim mun betri rekstraráætlun.“