Miami Heat staðfesti í gær að stjörnuleikmaður liðsins, Chris Bosh, væri farinn í rannsóknir á spítala.
Bosh var slappur á æfingu liðsins í gær og læknar liðsins kusu að senda hann á spítala. Félagið vildi ekki gefa upp hverskonar rannsóknir Bosh væri að fara í en fjölmiðlar í Miami segja að verið sé að skoða lungu leikmannsins.
Bosh byrjaði að finna fyrir einhverjum veikindum um Stjörnuhelgina. Veikindin ágerðust síðan er hann fór í frí til Haíti í kjölfarið ásamt liðsfélaga sínum, Dwyane Wade.
Bosh hefur verið að glíma við eymsli í rifjum. Hann fór ekki með liðinu og verður ekki með gegn Knicks í nótt.
