Skoðun

Lögreglufrumvarpið

Einar Hermannsson skrifar
Ungur og nýr þingmaður Sjálfstæðisflokks, Vilhjálmur Árnason, hefur lagt til frumvarp sem felur í sér að áfengissala verði gefin frjáls. Ég ætla ekki að mótmæla því að þingmenn komi fram með frumvörp sem eru þeirra hjartansmál og þeim finnst skipta þjóðina máli. Þetta er fyrsta frumvarpið sem hann leggur fram einn en hann gæti verið flutningsmaður að öðrum frumvörpum sem fleiri standa að.

Ég á hinsvegar mjög erfitt með að skilja hvaða hvatir liggja að baki hjá þessum ágæta og greinilega duglega þingmanni sem valda því að þetta er hans fyrsta mál á Alþingi. Hann hefur oft á tíðum talað um það að hann komi inn á Alþingi með reynslu sem lögreglumaður. Að koma því með frumvarp sem felur í sér meira aðgengi að áfengi, sem allar rannsóknir sýna að auki neyslu og eykur þar af leiðandi á þann vanda sem er nú nægur fyrir er mér óskiljanlegt. Sem lögregluþjónn hefur hann sennilega séð alla þá hörmung á heimilum þar sem áfengi leikur aðalhlutverkið, fjarlægt börn frá drukknum mæðrum, fjarlægt ofbeldisfulla drukkna feður og látið þá láta renna af sér í fangaklefa. Svo ekki sé nú talað um allt það sem gerist í miðbæ Reykjavíkur um helgar.

Ég er ekki viss um að kollegar hans í lögreglunni séu því sammála að þetta eigi að vera hans fyrsta mál á Alþingi, komandi úr starfi sem lögreglumaður. Ég held að þeir myndu benda honum á fullt af öðrum málum sem þeir vildu sjá í forgangi.

Það er ekkert sem kallar á þessa breytingu í okkar samfélagi, nema þá helst aukinn gróði fyrir verslanir sem er sennilega ekki í forgangi hjá fyrrverandi lögreglumanni, eða hvað?

Ég hvet hann því eindregið til að endurskoða þetta frumvarp og draga það til baka.




Skoðun

Sjá meira


×