Viðskipti innlent

Heildartekjur að meðaltali 421 þúsund krónur á mánuði

Sæunn Gísladóttir skrifar
Heildartekjur árið 2014 hækkuðu um 6,6 prósent frá árinu 2013.
Heildartekjur árið 2014 hækkuðu um 6,6 prósent frá árinu 2013. Vísir/Valli
Árið 2014 voru heildartekjur einstaklinga á Íslandi um 5,1 milljónir króna að meðaltali á ári eða 421 þúsund krónur á mánuði að jafnaði og höfðu hækkað um 6,6 prósent frá árinu 2013. Atvinnutekjur, sem innihalda launatekjur og aðrar starfstengdar greiðslur, voru 3,6 milljónir króna að meðaltali á ári eða um 300 þúsund krónur á mánuði að jafnaði og höfðu hækkað um 5,5 prósent frá fyrra ári. Aðrar tekjur voru rúmlega ein milljón króna árið 2014 og höfðu hækkað um 7,4 prósent á milli ára. Ráðstöfunartekjur voru 3,7 milljónir króna á ári og höfðu hækkað um 6,7 prósent á milli áranna 2013 og 2014. Þetta kemur fram á vef Hagstofunnar.

Frá árinu 1990 hafa heildartekjur hækkað um 58 prósent sé miðað við fast verðlag ársins 2014. Þróun ráðstöfunar- og atvinnutekna er mjög svipuð sé horft til 1990 til 2014 en ráðstöfunartekjur eru þó hærri en atvinnutekjur árin 2003 til 2010 og munar mestu árið 2007. Síðustu ár eru ráðstöfunartekjur aftur áþekkar atvinnutekjum. Mun á atvinnu- og ráðstöfunartekjum á tímabilinu 2003 og 2010 má að mestu rekja til aukinna fjármagnstekna. 

Aðrar tekjur, sem innihalda meðal annars lífeyris- og bótagreiðslur, hækkuðu jafnt og þétt fram til ársins 2009 þegar þau hækkuðu mest á tímabilinu. Hækkun ársins 2009 má að mestu rekja til þess að einstaklingum var þá gert heimilt að taka út séreignasparnað sem telst til annarra tekna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×