Matur

Dagur dásamlegrar ólyktar runninn upp

Guðrún Ansnes skrifar
Skatan smakkast betur en lyktin, staðfestir Úlfar. Hún er að minnsta kosti fjarska falleg blessunin.
Skatan smakkast betur en lyktin, staðfestir Úlfar. Hún er að minnsta kosti fjarska falleg blessunin. Fréttablaðið/GVA
Kúnstin að lágmarka skötulyktina segir matreiðslumeistarinn Úlfar Eysteinsson, sem hefur sannarlega marga fjöruna sopið, felst í eldun skötunnar.

„Yfirleitt er það þannig með skötuna að láta suðuna rétt svo koma upp, og láta svo sjóða varlega. Ekki vera með neinn fruntagang. Þá ætti fólk að vera nokkuð klárt á að menga ekki mikið,“ útskýrir Úlfar. Hann segir jafnframt mikilvægt að sjóða svo hangikjötið í beinu framhaldi af skötunni, þannig megi koma fýlunni fyrir kattarnef með mjúkum hætti. „Sumir hafa sett viskastykki með ediki yfir pottana til að koma í veg fyrir lyktina, en hvort sem menn gera það eða ekki þá skiptir máli eftir að skatan er tekin upp úr pottinum að hella vatninu strax og láta svo sjóðandi heitt vatn renna eftir að skötuvatnið hefur skolast niður.“

Úlfar Eysteinsson veit hvað hann syngur í skötumálum, og Þorláksmessa er hans uppáhaldsdagur. Fréttablaðið/GVA
Úlfar segist ætíð hlakka mikið til Þorláksmessunnar, en þessi dagur sé mest spennandi dagur ársins að hans mati. „Maður hittir svo rosalega marga. Hjá okkur rúlla í gegn fimm til sex hundruð manns þá tólf tíma sem við höfum opið,“ segir Úlfar, sem hreinlega iðar í skinninu yfir komandi skötuskenkingum. „Hingað kemur fólk sem hefur komið í tíu, fimmtán eða tuttugu ár, og bókar yfirleitt fyrir næsta ár þegar það er búið að sporðrenna skötuskammti ársins,“ segir Úlfar og bætir svo hlæjandi við: „Við tökum okkur svo til tveimur vikum fyrir Þorláksmessu og hringjum út í þá sem hafa bókað, til að taka stöðuna á hvort nokkuð sé um afföll vegna dauðsfalla.“

Hvernig skal haga sér í skötugerð að hætti Úlfars

1 Ef ósöltuð, setjið þá slatta af salti. Sjóðið í fimm mínútur.



2 Slökkvið undir og látið liggja með lokinu á. Nú hvílir skatan sig.



3 Kartöflur, rófur og hamsatólg græjuð.



4 Mikilvægt er að hafa með þessu rúgbrauð frá HP á Selfossi og ískalt smjör.



5 Drekkið mjólk eða vatn með. Bjór verður sætur með skötu, hvítvín vont og rauðvín kinký. Sleppið því.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×