Viðskipti innlent

Samkeppniseftirlitið samþykkir kaup Pressunnar á tólf blöðum Fótspors

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Samkeppniseftirlitið telur að samruninn feli ekki í sér röskun á fjölmiðlamarkaði.
Samkeppniseftirlitið telur að samruninn feli ekki í sér röskun á fjölmiðlamarkaði. Vísir/Ernir
Samkeppniseftirlitið hefur samþykkt kaup Pressunnar á tólf héraðsfréttablöðum víðs vegar um landið. Um er að ræða kaup félagsins á útgáfufélaginu Fótspor sem gefur hefuð út blöð í Reykjavík, Akureyri, Reykjanesi, Selfossi, Austurlandi, Vesturlandi, Vestfjörðum, Hafnarfirði og Kópavogi auk blaðanna Aldan, Birta og Sleggjan.

Hindrar ekki samkeppni

„Að undangenginni rannsókn og með hliðsjón af gögnum málsins er það mat Samkeppniseftirlitsins að samruninn hindri ekki virka samkeppni á mörkuðum málsins og leiði ekki til myndunar eða styrkingar á markaðsráðandi stöðu,“ segir á vef Samkeppniseftirlitsins. „Þá leiðir samruninn ekki til þess að samkeppni á markaði raskist að öðru leyti með umtalsverðum hætti.“

Tengjast mörgum útgáfum

Eftir samrunann rekur Pressan því áðurnefnd blöð, DV og vefútgáfuna DV.is, og Pressuna, sem einnig gefur út undir merkjum Bleikt og Eyjunnar. Nýverið hóf Bleikt svo útgáfu prentaðs blaðs og Eyjan hefur verið með sjónvarpsþátt á Stöð 2, sem er í eigu 365, sem er meðal annars útgefandi Vísis.

Pressan á meirihluta hlutafjár í DV ehf, auk fleiri aðila, en DV ehf. á aftur 60 prósent hlutafé í vefnum eirikurjonsson.is, vefs Eiríks Jónssonar, ritstjóra Séð og Heyrt, sem hins vegar er gefið út af Birtingi.

Fjölmiðlanefnd segir fjölræði minnka

Í umfjöllun Samkeppniseftirlitsins segir að Fjölmiðlanefnd, sem skoðaði málið með eftirlitinu, að með kaupum Pressunnar á blöðum Fótspors minnki fjölræði á fjölmiðlamarkaði þar sem útgáfufélag, sem gaf út tólf fjölmiðla, hverfi af markaði. Hins vegar hafi viðræður við aðra um kaup á félaginu ekki gengið og því hafi litið út fyrir að félagið yrði lagt niður. 

Samkeppniseftirlitið telur þó umsögn Fjölmiðlanefndar gefi ekki til kynna að dregið sé umtalsvert úr fjölræði og/eða fjölbreytni í fjölmiðlum með samrunanum þannig að skaðleg áhrif hljótist af honum sem leiða skuli til ógildingar eða setningu skilyrða.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×