Viðskipti innlent

Velta á fasteignamarkaði aukist um helming

Höskuldur Kári Schram skrifar
Velta á fasteignamarkaði á höfuðborgarsvæðinu hefur aukist um nærri helming á síðustu þremur árum. Rúmlega sjö þúsund samningum hefur verið þinglýst í ár, þúsund fleiri en allt árið í fyrra.

Fasteignamarkaðurinn hefur verið á stöðugri uppleið frá árinu 2009 en verulega dró úr fasteignaviðskiptum fyrstu misserin eftir hrun. Á þessu ári hefur fasteignaverð hækkað að meðaltali um tíu prósent.

Sé litið á veltu á markaði má sjá að hún hefur aukist um rúmlega helming frá árinu 2012. Þá var hún 166 milljarðar en var komin upp í rúma 270 milljarða um miðjan desembermánuð.

Sömu sögu er að segja fjölda þinglýstra samninga. Þeir voru 5.400 árið 2012 og rúmlega 6.200 í fyrra. Um desember var búið að þinglýsa rúmlega sjö þúsund og eitt hundrað samningum á höfuðborgarsvæðinu eða þúsund fleiri en í fyrra.

Kjartan Hallgeirsson fasteignasali og stjórnarmaður í Félagi fasteignasala segir að markaðurinn sé enn að jafna sig eftir hrunið og það skýri að sumu leyti þennan vöxt.

„Það er aukinn kaupmáttur, aukið lánsfé og þörfin hjá unga fólkinu er sannarlega til staðar. Það voru nokkur ár þar sem unga fólkið var ekki á markaðinum en það kom sannarleg inn á þessu ári,“segir Kjartan.

Hann segir mismundandi eftir hverfum hvort jafnvægi sé á milli eftirspurnar og framboðs. Flestir séu þó að leita að íbúðum í vesturbæ Reykjavíkur og miðborginni.

Hann á von á því að markaðurinn muni halda áfram að vaxa á næsta ári.

„Ég hef reyndar örlitlar áhyggjur af því að framboðið fyrir unga fólkið sé ekki nógu mikið. Unga fólkið sem er að koma inn á markaðinn er að kaupa minni og ódýrari íbúðir. Framboðið á þessum eignum er ekki mikið og þær nýbyggingar sem eru að koma inn á markaðinn eru fæstar á því verðbili sem hentar ungu fólki,“ segir Kjartan.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×