Viðskipti innlent

Sakar Vilhjálm um þráhyggju

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Björgólfur Thor Björgólfsson fjárfestir.
Björgólfur Thor Björgólfsson fjárfestir.
Björgólfur Thor Björgólfsson fjárfestir sakar Vilhjálm Bjarnason um þráhyggju vegna málaferla málsóknarfélags á hendur þeim fyrrnefnda. Vilhjálmur er í hópi aðila málsóknarfélagsins. Alls hafa 207 gengið til liðs við málsóknarfélagið, einstaklingar, lögaðilar og lífeyrissjóðir. Stefnan verður þingfest á morgun.

Eins og fram kom í Fréttablaðinu í morgun telur málsóknarfélagið að Björgólfur Thor hafi leynt upplýsingum um eignarhald sitt á Landsbankanum til að komast undan reglum um birtingu upplýsinga um viðskipti bankans við hann. Þau viðskipti hafi verið langt yfir þeim mörkum sem Fjármálaeftirlitið heimilaði.

Þá byggir félagið málatilbúning sinn á því að Samson eignarhaldsfélag, sem var í eigu Björgólfs og föður hans, hafi allt frá árinu 2006 ráðið yfir meirihluta atkvæða í Landsbanka Íslands hf. og því hafi félagið haft skyldu til að gera öðrum hluthöfum yfirtökutilboð.

Björgólfur Thor segist ekkert hafa gert rangt. „Málefni mín og bankans hafa verið rannsökuð í þaula af þar til bærum yfirvöldum og ekki talin ástæða til aðgerða í nokkru þeirra.  Þar að auki hef ég gert upp allar mínar skuldir við bankann og hann því skaðlaus af viðskiptum við mig.  Slitastjórn bankans hefur staðfest að hann eigi engar kröfur á mig,“ segir Björgólfur á vefsíðu sinni.

En hann segir að með þráhyggjuna að vopni sjá Vilhjálmur rangfærslur og svik þar sem sérfróðir rannsakendur sjái ekkert aðfinnsluvert. „Það er illt að dómskerfið þurfi að eyða tíma sínum í slíkan málatilbúnað,“ segir hann. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×