Skoðun

Hælisleitendur á Íslandi

Gísli Hvanndal skrifar
Hælisleitendur (umsækjendur um alþjóðlega vernd) á Íslandi eru þeir flóttamenn sem hafa gert sér sjálfir ferð til landsins, margir hverjir eftir endurtekinn flótta úr ömurlegum aðstæðum í öðrum ríkjum, innan og utan Evrópu, og bíða úrlausnar. Til aðgreiningar frá þeim flóttamönnum, sem hafa þegar fengið alþjóðlega vernd/stöðu flóttamanns á Íslandi, held ég mig við orðið hælisleitandi, enda staða þessara tveggja hópa gjörólík.

Hælisleitendur eru líklegast mest undirskipaði hópur samfélagsins. Þeir fá yfirleitt ekki að vinna fyrir sér. Þeir fá hins vegar inneignarkort í Bónus og rúmar 10.000 krónur í vasapening á mánuði, sem margir neyðast til að eyða í notuð föt sem aðrir gáfu til góðs.

Hælisleitendur fá ekki viðeigandi læknisþjónustu. Ýmislegt í fréttum hefur gefið til kynna að íslenska ríkinu sé mikið í mun um að skoða hælisleitendur í bak og fyrir til að geta tryggt sem mesta og besta heilbrigðisþjónustu. Góður vinur minn beið í þrjú ár eftir aðgerð vegna stungusárs á höfði sem vígasveitir Boko Haram veittu honum. Tveimur árum eftir komuna til landsins þurftu íslenskir læknar mannsins að þrýsta á trúnaðarlækni Útlendingastofnunar, sem að lokum gaf grænt ljós á að veita manninum viðeigandi læknisþjónustu og létta af honum þjáningum og hættu á blindu. Fram að því fórum við nokkrum sinnum saman í Útlendingastofnun þar sem okkur var nokkurn veginn vísað á dyr.  

Hælisleitendur fá ekki að læra of mikla íslensku. Flestir hælisleitendur sækja íslenskunámskeið og mæta upp á hvern einasta dag enda fátt annað að gera. Þeir telja sig styrkja stöðu sína og umsókn með náminu, sem hefur þó engin áhrif á umsóknarferlið. Þeir fá að taka ákveðinn hámarksfjölda námskeiða á önn en þurfa að borga sjálfir fyrir námskeið umfram þann fjölda.

Þeir hælisleitendur, sem ég þekki, vilja vinna og sjá fyrir sér sjálfir. Flestir þeirra eru ungir menn sem aðeins biðja um að fá að taka þátt í samfélaginu, en eru dæmdir til að bíða í örvæntingu, oft eftir því einu að láta henda sér úr landi. Þrátt fyrir þessa ömurlegu meðferð eru þessir menn þó allir hinir ljúfustu og prúðustu; reyna margir að taka þátt í öllu því félagsstarfi sem býðst og biðja bænir til síns guðs. Flestir hafa hvergi kynnst eins friðsælu samfélagi og eygja von um örugga framtíð á Íslandi.

Í staðinn fyrir alla þessa mótsagnakenndu þvælu væri einfaldlega hægt að veita hælisleitendum hæli eða dvalarleyfi af mannúðaraðstæðum. Allir kostir væru betri en að láta þá berjast við vindmyllur íslenskrar útlendingalöggjafar, í sumum tilvikum allt þar til Hæstiréttur hefur kveðið upp dóm um brottflutning og íslenska ríkið hefur eytt meiri fjármunum í stríðið heldur en farsæl móttaka heillar fjölskyldu hefði kostað. Ítrekað sendum við fólk aftur til landa sem hafa margfalt meira á sinni könnu en Ísland nokkurn tímann – þar sem aðstæður hælisleitenda eru oft ömurlegar. Svo þykjumst við ábyrgur þátttakandi í alþjóðasamfélagi og styðjum stríðsrekstur í fjarlægum löndum.

Nú ríður á að bjóða til landsins eins mörgum og við mögulega getum. Þann möguleika skulum við ekki miða við formúlur valdhafa, sem eiga tugi milljarða til handa fasteignaeigendum en ekki laun handa hjúkrunarfræðingum. Miðum fjöldann við mannúð og þá miklu neyð sem nú ríkir. Hættum að eyða fjármunum í lögregluaðgerðir og málarekstur fyrir dómstólum og verjum þeim frekar í velferðar- og heilbrigðiskerfi, sem nýtist öllum sem á Íslandi búa.

Fjölmargir hafa gerst sjálfboðaliðar hjá Rauða krossinum. Það er frábært að einhver skuli hjálpa þeim sem yfirvöld undirskipa og útiloka frá samfélaginu. En langbest væri auðvitað að taka fólki opnum örmum og veita því aðgang að samfélaginu. Til þess þarf hugarfarsbreytingu og mikið átak í þessum málaflokki.

Sýnum hjálparþurfi fólki, sem leitar til Íslands, virðingu, tryggjum því mannréttindi og auðgum samfélagið og okkur öll um leið.




Skoðun

Sjá meira


×