Viðskipti innlent

Vilja álver vegna jákvæðra áhrifa á Grundartanga og Reyðarfirði

Kristján Már Unnarsson skrifar
Hafinn er undirbúningur álvers á Norðurlandi vestra, milli Blönduóss og Skagastrandar. Álverið yrði í meirihlutaeigu íslenskra aðila en reist í samstarfi við kínverskt fyrirtæki. Sveitarfélögin á Norðurlandi vestra hafa undirritað samstarfssamning um álverið sem fyrirhugað er að rísi á iðnaðarsvæði við Hafursstaði, skammt sunnan Skagastrandar.

Íslenskt félag, Klappir Development, undirbýr þar 120 þúsund tonna álver en orkuþörf þess yrði 206 megavött. Í sameiginlegri yfirlýsingu sveitarfélaganna og Klappa kemur fram að reiknað sé með því að orkan komi frá Blönduvirkjun í samræmi við vilja og samkomulag heimamanna og stjórnvalda þegar virkjunin var byggð. Tímasetning á afhendingu orkunnar er þó háð því að búið verði að virkja annarsstaðar fyrir núverandi viðskiptavini Blönduvirkjunar.

Bæði Sauðárkrókur og Blönduós yrðu innan atvinnusvæðis álversins og þar er gert ráð fyrir 240 varanlegum störfum. Í yfirlýsingu samstarfsaðilanna segir að horft sé til þeirra jákvæðu samfélagslegu áhrifa sem fylgt hafi stóriðju á Grundartanga og á Reyðarfirði. Ráðist yrði í gerð stórskipahafnar við Hafursstaði auk uppbyggingar annarra innviða á Norðvesturlandi. Áætlað er að fjárhagslegri og tæknilegri úttekt á verkefninu ljúki fyrir lok þessa árs.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×