Viðskipti innlent

Lokaði reikningum sínum vegna yfirtöku Arion

Samúel Karl Ólason skrifar
Róbert Guðfinnsson.
Róbert Guðfinnsson. Vísir/Arnþór
Athafnamaðurinn Róbert Guðfinnsson hefur lokað reikningum sínum og fyrirtækja sinna í AFL sparisjóðnum á Siglufirði. Það gerði hann í kjölfar yfirtöku Arion banka á sparisjóðnum. Róbert segir sporin hafa verið þung og að Sparisjóðurinn hafi verið hluti af lífi sínu og ættingja sinna alla tíð. Síðasta heimsókn hans í sparisjóðinn hafi verið af öðrum toga en hinar.

„Ég var að loka bankareikningum mínum og fyrirtækja minna. Starfsfólkið sem hefur sinnt okkur af alúð var niðurlútt. Það leið engum vel í nýja umhverfinu. Þegar kom að því að taka út inneignir af bankareikningi kom í ljós að ekki var til laust fé í sparisjóðnum til greiða út.“ Þetta skrifar Róbert á vefnum siglo.is.

Róbert segir að þetta hafi aldrei komið fyrir sig áður og gerir hann ráð fyrir að aðrir hafi verið á undan honum að taka út inneignir sínar.

„Þegar nýr sparisjóðsstjóri var krafinn skýringa var svarað með hinum alkunna Arion hroka: „Peningarnir eru ekki til“. Þar sem áhugi minn á bankastarfsemi hefur alltaf verið takmarkaður og ekki kunnað mikið um skyldur bankastofnana þá varð ég mjög hissa.“

AFL sparisjóður varð til við samruna Sparisjóðs Siglufjarðar og Sparisjóðs Skagafjarðar árið 2007.

Róbert hefur gagnrýnt yfirtökuna harðlega og í pistli sem hann birti í síðustu viku hélt hann því fram að með henni væri Arion banki að koma sér undan málaferlum. Hann segir AFL hafa verið í málaferlum gegn Arion vegna erlendra lána.


Tengdar fréttir

Sjóarinn sem hafið hafnaði

Siglfirðingurinn Róbert Guðfinnsson er næsti viðmælandi Jóns Ársæls í Sjálfstæðu fólki.

Róbert tók 114 milljónir út, setur núna 3 milljarða inn

Róbert Guðfinnsson er að setja yfir þrjá milljarða króna í sinn gamla heimabæ, Siglufjörð. Hann byggir upp ferðaþjónustu, líftæknifyrirtæki, áformar efnaverksmiðju og býr til golfvöll og skíðasvæði fyrir eigin reikning.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×